138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úrræði gegn ólöglegu niðurhali hugverka.

253. mál
[14:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar sem mér finnst mjög áhugavert. Ég vona að einhverjir séu að fylgjast með því sem hér kemur fram því að hæstv. ráðherra fór vítt um á mjög stuttum tíma. Það er augljóst að við erum ekki ein um það, ég og hæstv. ráðherra, að velta þessu fyrir okkur því að þetta er augljóslega komið mjög langt og mun lengra í öðrum löndum. Ég held að svar hæstv. ráðherra sýni okkur að mjög mikilvægt er að við förum skipulega í þetta og ég hvet hæstv. ráðherra til að setja þetta mál í skipulegan farveg. Æskilegast væri að sjá einhverja skýrslu um hvað er búið að gera í öðrum löndum, þannig að við getum lært af því sem vel hefur verið gert þar og reynt að koma í veg fyrir að við lendum í einhverjum af þeim mistökum sem aðrar þjóðir hafa lent í og hæstv. ráðherra benti á. Þetta er ekki alls ekki einfalt mál og það er áhugavert að heyra hvernig aðilar í öðrum löndum mæta þessu t.d. með auknu framboði og leiðum sem hæstv. ráðherra fór yfir, sem eru hugtök sem sá sem hér stendur þarf að átta sig aðeins betur á áður en hann fer að nota þau í þessum ræðustól. (Gripið fram í.) Þrátt fyrir áskorun hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar ætla ég ekki að reyna neitt að þessu sinni.

Eðli máls samkvæmt er hér verið að tala um ólöglegt niðurhal og eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er það svo í Frakklandi t.d. að ef menn eftir allar aðvaranirnar fara ekki eftir því, er slökkt á netinu hjá þeim. Svo mikið veit ég að það verður snúið fyrir flestar fjölskyldur að lenda í því að slökkt sé á netinu hjá þeim og mundi breyta mjög háttum þeirra, en það er kannski nauðsynlegt (Forseti hringir.) ef við ætlum að ná þeim árangri sem við viljum ná.