138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úttekt á aflareglu.

356. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þann 22. maí á síðastliðnu ári skrifaði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Efni þess bréfs var að óska eftir því að ráðið, Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, tæki út hina svokölluðu 20% aflareglu við þorskveiðar næstu fimm árin. Í bréfi hæstv. ráðherra er það rakið að frá 10. áratug síðustu aldar hafi íslensk stjórnvöld reynt að stýra þannig þorskveiðum að það leiddi til þess að þorskstofninn stækkaði, þannig að það leiddi til hámarksafrakstursgetu. Það er rakið í þessu bréfi að þetta hafi skilað þeim árangri að fiskveiðidánarstuðullinn hafi lækkað og hrygningarstofninn hafi stækkað úr því að vera 120.000 tonn árið 1993, þegar hann var lægstur, upp í 220.000 tonn eins og hann er í dag.

Jafnframt er greint frá því í þessu bréfi að ríkisstjórnin — ekki bara ráðherrann heldur ríkisstjórnin — hafi samþykkt, gerð var um það ríkisstjórnarsamþykkt, að fylgja svokallaðri 20% aflareglu næstu fimm árin, frá og með yfirstandandi fiskveiðiári. Ég vek athygli á því að þetta bréf var sent áður en álit Hafrannsóknarstofnunar varðandi stöðu fiskstofna var kynnt í byrjun júnímánaðar. Þetta var 22. maí 2009. Þá var sem sagt búið að taka um það ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar að fylgja 20% aflareglu næstu fimm árin. Þetta er auðvitað heilmikil ákvörðun. Nú er það svo að ráðherra hefur óskað eftir því að fá álit og mat Alþjóðahafrannsóknaráðsins á þessari aflareglu. Það að fá mat Alþjóðahafrannsóknaráðsins er ekki einhver almenn æfing heldur geri ég ráð fyrir að hér sé verið að reyna að undirbyggja aflaregluna þannig að hægt sé að sýna þeim sem efast um gildi hennar fram á að hún hafi gildi.

Ég hef því leyft mér að leggja fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra um þetta. Í fyrsta lagi spyr ég hvort lokið sé úttekt Alþjóðahafrannsóknaráðsins á þessari 20% aflareglu. Og ef svo er, hver er niðurstaðan á úttekt ráðsins?

Í öðru lagi vil ég spyrja um markmiðið með þessari úttekt. Af hverju er verið að biðja Alþjóðahafrannsóknaráðið um úttekt af þessu tagi?

Ég velti því fyrir mér, sem er sú spurning sem brennur á vörum flestra sem koma að sjávarútvegi þessa dagana, hvaða þýðingu þessi úttekt hafi um ákvörðun um hámarksafla í þorski næstu fimm árin. Ekki gleyma því að þetta er samþykkt til fimm ára. Þetta er ekki til eins árs í senn heldur til fimm ára.

Sú spurning vaknar líka hvort ætlunin sé að móta aflareglu (Forseti hringir.) af einhverju tagi við nýtingu á fleiri fisktegundum á næstunni.