138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úttekt á aflareglu.

356. mál
[15:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson kom inn á hefur um nokkurn tíma verið í gangi undirbúningur af hálfu stjórnvalda og Hafrannsóknarstofnunar að því að senda bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins um að beita svokallaðri 20% aflareglu við þorskveiðar. Bréf fór út til ráðsins eins og hv. þingmaður rakti og þann 20. janúar sl. barst ráðuneytinu svar Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, sem Hafrannsóknastofnun á aðild að, þar sem gerð er grein fyrir úttekt óháðrar sérfræðinganefndar sem sérstaklega var kölluð til til að taka út nýtingarstefnu þá sem Hafrannsóknastofnun lagði til vorið 2009 að fylgt yrði á næstu fimm árum. Í svari ICES kom m.a. fram staðfesting á mati Hafrannsóknastofnunar á því að þessi sjálfbæra nýtingarstefna muni leiða til þess með yfirgnæfandi líkum að hrygningarstofnar þorsks fari vaxandi og verði stærri árið 2015 en þeir voru í ársbyrjun 2009. Jafnframt kemur fram að nýtingarstefnan sé í samræmi við alþjóðleg varúðarsjónarmið og viðmið um sjálfbæra nýtingu sem leiði til betri afraksturs til lengri tíma litið.

Í öðru lagi er spurt hvert markmiðið með þessari úttekt á aflareglunni hafi verið. Það er ljóst að það er bæði í samræmi við markmið um hagkvæmar fiskveiðar og umhverfisleg markmið að tryggja sjálfbærar fiskveiðar. Endurskoðuð nýtingarstefna fyrir þorsk, sem mörkuð var árið 2007, þar sem gert var ráð fyrir að nýtingarhlutfall þorsks sé 20% af viðmiðunarstofni fjögurra ára og eldri fiski, hefur þetta að leiðarljósi, en markmiðið var aukin nýliðun og sjálfbærni þorskstofna. Að fá staðfestingu utanaðkomandi aðila á því að sú stefna sem mörkuð var sé líkleg til að skila árangri og settum markmiðum er út af fyrir sig eftirsóknarvert. Hins vegar ber því ekki að leyna og er rétt að undirstrika að krafa markaðarins í dag er fullvissan um að stjórnvöld vinni eftir bestu getu að því að ná markmiðum um sjálfbærni í veiðum og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Er enginn vafi á að staðfesting Alþjóðahafrannsóknaráðsins á sjálfbærni markaðrar stefnu hefur markaðslegt gildi fyrir seljendur íslenskra þorskafurða.

Hv. þingmaður spyr hvaða þýðingu slík úttekt hafi fyrir ákvörðun um hámarksafla þorsks næstu fimm árin. Þessi úttekt staðfestir einfaldlega þá skoðun ICES að mörkuð stefna, út frá þeim forsendum sem settar voru fram, er skynsamleg. Enn fremur er bent á mikilvægi þess að halda sig við markaða stefnu, en jafnframt verði að fylgjast vel með þróuninni og afla stöðugt meiri þekkingar á vistfræðilegri fiskveiðistjórnun því að ekki getur ríkt nein kyrrstaða á þessu sviði frekar en öðrum. Komi fram nýjar upplýsingar verða stjórnvöld líkt og ætíð að geta brugðist við. Þetta á ekki hvað síst við nú vegna hinna miklu vistkerfisbreytinga sem eiga sér stað í kringum landið. Allt miðar þetta að því að unnt verði að auka aflaheimildir með sjálfbærum hætti og á fjölþættum vistfræðilegum grunni á komandi árum svo að það sé alveg skýrt.

Hv. þingmaður spyr: Er ætlunin að móta aflareglur við nýtingu fleiri fisktegunda á næstunni? Engar ákvarðanir hafa verið teknar um mótun slíkra sérstakra aflareglna fyrir fleiri fisktegundir að svo komnu máli af hálfu ráðuneytisins. Lögð er áhersla á að aukin reynsla þurfi að komast á nýtingarstefnu fyrir þorskinn og samspil ólíkra tegunda í vistkerfinu. Það er jafnframt mat ráðuneytisins að hin svokallaða fjölstofna umræða þurfi að þroskast frekar og jafnframt gefa hinar öru breytingar í lífríkinu vegna hlýnunar, ásamt viðbótarþekkingu sem aflað er á hverjum tíma, fulla ástæðu til þess að undirbyggja mjög vel hvert skref í þessum efnum.

Það hefur hins vegar um árabil verið á verkefnaskrá Hafrannsóknastofnunar að undirbúa, í samráði við stjórnvöld og atvinnugreinina, sjálfbæra nýtingarstefnu þar sem beitt er vistfræðilegri nálgun fyrir helstu fisktegundir okkar, enda eðlilegt að fylgst sé náið með þróuninni af hálfu stofnunarinnar.

Um árabil hafa verið í gildi föst viðmið við nýtingu íslenskrar sumargotssíldar en einnig loðnu sem nýtt er í Noregi og á Grænlandi auk Íslands. Nú þegar hefur átt sér stað vinna á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem miðar að formlegri úttekt á sjálfbærri nýtingarstefnu fyrir loðnu. Þá er gert ráð fyrir að á fyrri hluta árs 2010 verði unnið að mótun viðmiða fyrir ufsa og ýsuveiðar með það að leiðarljósi að móta sjálfbæra nýtingarstefnu á vistfræðilegum grunni fyrir þessar veiðar í góðu samráði við atvinnugreinina.

Að lokum skal nefnt starf (Forseti hringir.) sem fram mun fara á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins á þessu ári (Forseti hringir.) og snýr að gulllaxi, keilu og fleiri tegundum sem takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um.