138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

nýliðun í landbúnaði.

363. mál
[15:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að við deilum því, ekki hvað síst nú við lok efnahagshrunsins þegar við erum að byggja upp samfélagið að nýju, að treysta einmitt á landbúnaðinn og tengdar greinar, úrvinnslugreinar og annað sem tengist landbúnaðinum, og aðrar grunngreinar eins og sjávarútveginn sem við ræddum um áðan.

Þótt að vísu séu erfiðir tímar þar er margt að gerast í sveitum og möguleikar þar í sjálfu sér vaxandi í þessum efnum. Það sem er bundið í lögum núna og ég vil nefna eins og hv. þingmaður kannski veit, var á fyrsta ári nýs búvörusamnings ákveðið að verja 80 millj. kr. til nýliðunar og átaksverkefna í sauðfjárrækt. Til nýliðunar í stétt sauðfjárbænda verður varið 35 millj. kr. m.a. í formi styrkja til bústofnskaupa, bæði til frumbýlinga og við ættliðaskipti á bújörðum. Þá verða 30 millj. kr. nýttar til að styðja kennslu, rannsóknir og leiðbeiningar og þróun í greininni, t.d. vegna gæðastýringar og lífrænnar framleiðslu. Loks skal veita allt að 15 millj. kr. til stuðnings við endurræktun og jarðrækt. Ráðstöfun þessa fjár er í höndum Bændasamtaka Íslands.

Til að auðvelda fólki að taka ákvarðanir um fjárfestingu í búskap hef ég skipað nokkra starfshópa, sem eru að störfum og sumir eru að ljúka störfum, sem hafa það hlutverk að greina stöðu hinna ýmsu búgreina og koma með tillögur til úrbóta.

Nefnd um framtíð svínaræktar er að ljúka störfum og veit ég að þar er bent á ýmsa þætti sem miða að því að svínaræktin geti verið rekin sem mest á sömu forsendum og aðrar greinar íslensks landbúnaðar. Við framleiðsluna skuli tekið mið af bæði fæðuöryggi þjóðarinnar og hollustu afurðanna, ásamt samfélagslegum áhrifum búgreinarinnar hvað varðar verðmætasköpun, aukna atvinnu og í að treysta byggð. Einnig er lögð áhersla á að nýta enn frekar innlent fóður og þá fyrst og fremst íslenskt korn.

Annar hópur er að fjalla um hvernig auka megi kornframleiðslu frá því sem nú er og möguleika á nýtingu korns til manneldis jafnt sem til fóðurframleiðslu fyrir búpening. Ég hef lagt áherslu á að menn setji sér markmið varðandi kornframleiðslu í landinu þannig að ákveðinn hluti mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu á næsta árabili byggist á innlendri fóðuröflun, sem hlýtur líka í sjálfu sér að vera atvinnuskapandi og auka möguleika fyrir nýja aðila til að koma inn í þá grein og fyrir aðra að styrkja sig.

Sams konar nefnd er líka um alifuglarækt varðandi fæðuöryggi og fóðuröflun og aðra þætti sem lúta að þeirri grein.

Síðasta sumar var gengið frá sambærilegum samningi við garðyrkjubændur og gert var við mjólkur- og sauðfjárbændur. Samhliða þeim samningi var undirrituð viljayfirlýsing um ásetning aðila um aukna hagkvæmni íslenskrar ylræktar og að auka möguleika greinarinnar á komandi árum. Um leið og samningurinn við garðyrkjubændur var kynntur undirritaði ég reglugerð um breytingu á merkingu matvæla, en þar voru settar nýjar reglur um merkingar á umbúðum matjurta hvað varðar upplýsingar um upprunaland. Legg ég áherslu á að tryggt sé hvað varðar allar landbúnaðarvörur sem eru á markaðnum hérlendis að kaupandinn sjái hvar þær eru upprunnar, þannig að hver og einn geti þá valið að kaupa íslenskt eins og við viljum ábyggilega flest.

Í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um mikilvægi þess að standa vörð um innlendan landbúnað og tryggja fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Jarða- og ábúðarmál eru nátengd yfirlýstum markmiðum um fæðuöryggi þjóðarinnar. Meginstefnan hlýtur að felast í því að halda utan um og vernda núverandi og framtíðarlandnæði sem er til matvælaframleiðslu fallið og skapa jafnframt sem best skilyrði í hinum dreifðu byggðum til fjölþættra nota sem á þessu byggist. Í þessu felst jafnframt að hafa í huga verndun einstakra náttúrufyrirbrigða og vistkerfa og sömuleiðis skapast þarna grundvöllur fyrir nýja aðila sem hyggja á vinnu við íslenskan landbúnað í einni og annarri mynd.

Einnig má nefna ferðaþjónustu og verkefnið Beint frá býli, að auka þannig vinnslu heima á bæjunum. Allt er þetta til að styrkja atvinnulífið en hinu er ekki að leyna, eins og hv. þingmaður minntist á, að kannski þarf að grípa til enn markvissari aðgerða og gera ungum bændum kleift að fjármagna sig fyrstu skrefin. Mjög slæmt var að missa Lánasjóð landbúnaðarins á sínum tíma og ég var náttúrlega algjörlega á móti því þegar hann var lagður niður. Í gegnum þann sjóð var einmitt hægt að koma með sértækan stuðning í þeim efnum.

Ég segi það hér að ég er jafnframt að hugleiða hvort nota megi það fjármagn sem er í umferð vegna umsýslu ríkisjarða til að koma til (Forseti hringir.) móts við endurnýjun í landbúnaði. Þetta er í skoðun, frú forseti.