138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

nýliðun í landbúnaði.

363. mál
[15:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu, sem og hæstv. ráðherra fyrir þessi svör sem ég var satt best að segja ekki að öllu leyti ánægður með. Auðvitað er það mjög gott og ég er sammála mörgu því sem hæstv. ráðherra benti hér á um sóknarfæri í íslenskum landbúnaði en hann kom mjög lítið inn á það sem fyrirspurnin sneri að, þ.e. nýliðun í íslenskum landbúnaði. Hvað hafði ráðherrann verið að gera til þess að tryggja nýliðun og hvað ætlar hann sér að gera? Því miður var mjög lítið um svör í þeim efnum. Það var einmitt þess vegna sem ég hóf þessa umræðu, til þess að fá fram svör við því hvað ráðherrann ætlaði sér að gera, vegna þess að meðalaldur fer hækkandi í þessari mikilvægu stétt og það er mikilvægt að nýtt fólk hafi kost á því að koma að þessari starfsemi. Eins og hv. þm. Þráinn Bertelsson benti svo réttilega á hér áðan er það mjög annmörkum háð hvernig fólk á að komast inn í þessa grein. Að því sneri þessi fyrirspurn: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til þess að auka möguleika á nýliðun?

Við skulum ekki gleyma því að þrátt fyrir þetta efnahagshrun sem blasir við okkur felast mörg tækifæri í því að reisa við og efla íslenskan landbúnað. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að veruleg viðskipti íslensks landbúnaðar fara m.a. fram í gegnum Landsbankann, sem er í eigu hins opinbera. Það eru fjölmörg tækifæri, ef raunverulegur vilji er fyrir hendi, til að ungt fólk geti með raunhæfum hætti komið inn í þessa atvinnugrein, eflt íslenskan landbúnað og aukið þar með orðspor landsins er snertir fæðuöryggi og gæði matvælanna. Við þurfum að horfa langt fram á veginn í þessum efnum. Við þurfum að styrkja íslenskan landbúnað. Hann á sér aukinn stuðning úti í samfélaginu en það er ljóst að sá stuðningur verður ekki eilífur ef meðalaldurinn og nýliðunin verður ekki sem skyldi.

Nú er lag, hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, að efla þessa mikilvægu atvinnugrein. Þess vegna vil ég fá svar við þeirri fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. ráðherra.