138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

nýliðun í landbúnaði.

363. mál
[15:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Eitt það mikilvægasta sem hefur verið gert er að snúa frá þeirri stefnu sem var hjá fyrri ríkisstjórnum um að opna fyrir meira eða minna óheftan innflutning á landbúnaðarvörum. Okkur tókst meira að segja nú með svokallaðri matvælalöggjöf, sem bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu beitt sér fyrir að innleiða, þar sem átti að leyfa óheftan innflutning á hráum kjötvörum — núna hefur þetta verið stoppað og uppi er sú staða að við erum að stórauka innlenda neyslu á landbúnaðarvörum, innlendri framleiðslu. Það er náttúrlega bæði mjög mikilvægt í atvinnu- og tekjuskapandi skyni fyrir þjóðina en líka til þess að spara gjaldeyri. Þar hefur verið snúið við blaðinu frá því sem var hér á síðastliðnum áratug. (Gripið fram í.) Það skiptir miklu — (Gripið fram í: Nýliðunin.) Þá koma ný störf, þegar atvinna skapast.

Varðandi spurningu hv. þm. Sigurgeirs Sindra Sigurgeirssonar þá hefur þessi nefnd verið skipuð og formaður Samtaka ungra bænda er í henni. Hún var reyndar skipuð fyrir áramót en fer núna á fulla ferð og þar er einmitt verið að taka á þessum þáttum, jarðamálunum og umsýslunni. Ég hef þegar stöðvað sölu á — og hef ekki lagt til heldur stöðvað sölu á frekari ríkisjörðum nema þar sem ábúendur hafa búið lengi á jörðum og eiga þannig séð aðgang til þess að kaupa sínar jarðir. Áður fyrr voru ríkisjarðir bara seldar og ekkert hugsað um hvaða afleiðingar það hefði fyrir íslenskan landbúnað. Þessu hefur líka verið snúið við. Ég ætla mér að nú með þessum starfshópi, sem formaður Samtaka ungra bænda er einmitt aðili að sem og Bændasamtökin, ráðuneytið og fleiri aðilar, verði mörkuð stefna einmitt hvað varðar verndun landbúnaðarlands, landbúnaðar og jarða, (Forseti hringir.) þar á meðal ríkisjarða og jarða í opinberri eigu, og hvernig við getum beitt þeirri umsýslu sem þegar er í gangi til þess að styrkja nýliðun í landbúnaði. (Gripið fram í: Þarna kom loksins orðið „nýliðun“.)