138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ríkisfjármál.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bera upp spurningu við hæstv. fjármálaráðherra er lýtur að ríkisfjármálunum. Á yfirstandandi ári höfum við ákveðið að ná að mestu fram aðlögunarþörf í ríkisfjármálum með skattahækkunum. Þetta ákvað Alþingi undir lok síðasta árs með samþykkt fjárlaga en í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins er gert ráð fyrir því að skattarnir, nýir skattar, hækkaðir skattar, verði ekki nema tiltekið hlutfall af þeirri aðlögunarþörf sem metin hefur verið 119 milljarðar kr. á árunum 2009–2011. Þannig segja Samtök atvinnulífsins, og ASÍ reyndar, að ríkisstjórnin hafi nú þegar hækkað skatta meira en um hafi verið samið í stöðugleikasáttmálanum og því sé ljóst að eftir sé heilmikill niðurskurður í ríkisfjármálum til að aðlögunarþörfinni verði mætt. Reyndar segja Samtök atvinnulífsins það augljóst að u.þ.b. 50 milljarða kr. niðurskurður sé eftir til að við náum að jafna fjárlagagatið á þessu tímabili.

Mig langar að bera upp spurningu við hæstv. fjármálaráðherra, í fyrsta lagi um það hvernig árið 2010 fari af stað þegar kemur að tekjuhliðinni, þ.e. hvernig skattarnir skili sér. Liggja einhverjar upplýsingar fyrir um það? Eins hitt: Hvernig sér hæstv. fjármálaráðherra fyrir sér að við munum fara í þennan niðurskurð? Við í stjórnarandstöðunni höfum boðist til að eiga samráð við stjórnarflokkana um það hvernig staðið verði að þessari miklu aðlögunarþörf, hvernig staðið verði að samdrætti í útgjöldum ríkisins vegna þess að ég veit eins og allir hinir í þessum sal að þar stöndum við frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, en það má ekki bíða að hefja þá undirbúningsvinnu. Það hleypur á tugum milljarða sem við þurfum að lækka ríkisútgjöldin.