138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ríkisfjármál.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Til þess að við náum jöfnuði í ríkisfjármálunum að nýju þurfum við annars vegar að lyfta tekjunum upp, fá skattstofnana til að skila tekjum að nýju, og hins vegar að taka metnaðarfyllri ákvarðanir um að lækka ríkisútgjöldin en ríkisstjórnin hefur gert fram til þessa. Tölurnar ljúga ekkert í þessum efnum, við erum með um 28 milljörðum kr. lægri útgjöld á þessu ári en því síðasta miðað við það sem áætluð afkoma ríkisins er árið 2009.

Árið fer hægar af stað en ráð var fyrir gert, segir hæstv. fjármálaráðherra. Ég spyr mig hvort það geti ekki verið að hinar miklu skattahækkanir sem komu til framkvæmda um áramótin valdi einmitt þessu. Eins líka hitt að okkur hefur ekki tekist að blása lífi í atvinnuvegina, koma framkvæmdum af stað, efla tekjugrunnana. Allt hlýtur þetta þess vegna að valda okkur miklum áhyggjum vegna þess að ef þessi þróun heldur áfram (Forseti hringir.) og tekjurnar skila sér ekki, eins og við sjálfstæðismenn höfum reyndar spáð, bíður okkar ekkert annað en enn harkalegri niðurskurður, niðurskurður upp á meira en 50 milljarða kr.