138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ríkisfjármál.

[10:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ástæðulaust að þræta um tölulegar staðreyndir. Þær liggja fyrir. Það er t.d. alveg augljóst mál að sú ákvörðun, sem ekki var auðveld, að verðbæta ekki alla helstu bótaliði og allar helstu breytur fjárlagaársins 2010 er aðgerð sem dregur úr útgjöldum upp á á annan tug milljarða króna. Það er auðvelt að sýna fram á að beinar ráðstafanir draga úr kostnaði sem ella hefði orðið af þessari stærðargráðu sem ég áður sagði, en hv. þingmaður og allir aðrir verða að horfast í augu við að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Annaðhvort tökum við á okkur þau auknu útgjöld sem auknu atvinnuleysi fylgja og annað í þeim dúr eða við gerum það ekki. (Gripið fram í.) Ef við gerum það verður kostnaður þar á móti sparnaðinum og niðurskurðinum sem annars staðar er.

Ríkisstjórnin afgreiddi í þessari viku verk- og tímaáætlun varðandi fjárlagagerðina. Það starf er farið á fulla ferð. Það verður erfitt, og það er sjálfsagt mál að kynna mönnum það í þingnefndum og annars staðar þar sem það mál á sérstaklega við. Ýmsir góðir hlutir eru að gerast í atvinnulífinu en það er líka óvissa sem hefur lagst yfir (Forseti hringir.) frá og með áramótum sem verkar ekki örvandi í þessu sambandi, dregur úr líkum á að við fáum áframhaldandi hagstæða þróun sem var í gangi á síðustu mánuðum ársins 2009 hvað varðar lækkun vaxta, verðbólgu og stöðugri horfur í efnahagslífinu.