138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[10:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina sem er þó á nokkrum misskilningi byggð þegar hann ræðir um að ríkisstjórn Íslands sé fjölskipað stjórnvald sem hún er ekki þar sem hver ráðherra fer með sinn málaflokk.

Varðandi atvinnustefnu umhverfisráðherra fer hún ágætlega saman við atvinnustefnu ríkisstjórnar Íslands sem betur fer því að annað væri óþægilegt. Atvinnustefnan snýst fyrst og fremst um þróun í átt til sjálfbærni fyrir Ísland. Þetta eru nokkuð stór orð og nokkuð mikið sagt, ekki síst vegna þess að það er búið að venja íslenska þjóð á töluverða ósiði í tíð fyrri ríkisstjórna. Þá á ég við það að teknar séu sífellt og ítrekað ákvarðanir sem eru hugsanlega á skjön við hagsmuni umhverfis, náttúru og langrar framtíðar á Íslandi. Það er ekki einfalt mál að snúa frá slíkum aðferðum en að því sem lýtur að afgreiðslu skipulags varðandi neðri Þjórsá sem hér er spurt um er um einfalda spurningu að ræða: Ætlum við að fylgja lögum og reglum á Íslandi eða ætlum við ekki að gera það?

Ég kýs að fylgja lögum og reglum á Íslandi. Vinna við skipulag þessara tveggja sveitarfélaga var tekin til skoðunar hjá tveimur ráðuneytum hvað varðaði réttmæti þess að framkvæmdaraðili greiði fyrir gerð skipulags. Bæði ráðuneytin komust að þeirri niðurstöðu að slíkt væri óheimilt þannig að niðurstaðan er klár. Ég held að það hljóti að vera kjarni allrar stefnu hvort sem það er atvinnustefna eða önnur uppbyggingarstefna á Íslandi að við förum að lögum.