138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[10:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. umhverfisráðherra komast nokkuð létt frá því að svara því af hverju enn þá liggja inni í ráðuneytunum ein 6–7 verkefni sem eru búin að vera þar í þrjá mánuði og upp í 200 daga, en það er hægt að afgreiða önnur verkefni fljótt og vel sem ekki tengjast virkjunum. Mig langar að heyra skoðun umhverfisráðherra á því hver hin raunverulega atvinnustefna sé. Varðandi lög og reglur sem fylgt var í sambandi við aðalskipulag í Flóa- og Skeiðahreppi er það lengri umræða sem við þurfum að fara í og ég mun án efa reyna að efna til hennar í þinginu.

Vegna þeirra orða hæstv. ráðherra að það væru stór orð sem tæki langan tíma að efna hafa líka mörg stór orð fallið um að það þurfi að koma atvinnulífinu í gang, fækka fólki á atvinnuleysisskrá og sýna einhverja von í brjósti um að eitthvað sé að fara að gerast. Ég væri svolítið til í að heyra hæstv. umhverfisráðherra lýsa með sambærilegum hætti (Forseti hringir.) yfir hinum þúsundum starfa sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst yfir að séu væntanleg. Ég vildi gjarnan heyra hæstv. umhverfisráðherra segja það hér í pontu og þá verða athafnir að fylgja orðum.