138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[10:46]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Síðara andsvar er ein mínúta og það er of stuttur tími til að telja upp allt sem núverandi ríkisstjórn er að gera í atvinnumálum. Það er of stuttur tími til að fara yfir öll þau góðu verkefni sem eru í gangi. Það er of stuttur tími til að tala um það að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki búa við betri aðstæður en þau hafa nokkru sinni gert. (Gripið fram í.) Þar er meiri kraftur í gangi en verið hefur áður. Við sjáum sem betur fer vonarstjörnu hvað það varðar. En þeir sem tala allt niður og sjá enga von nokkurs staðar verða líka að hugsa um sína ábyrgð þegar við tölum um að blása Íslendingum von í brjóst, því að það er þekkt staðreynd og ekki bara frá Íslandi heldur alls staðar í heiminum að kreppa er ekki bara hagtala heldur líka raunverulegt andlegt ástand og þar ber stjórnarandstaðan líka ábyrgð.