138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:49]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og tek undir með henni um mikilvægi þess að við eigum gott samráð og ræðum saman um frekari lausnir á skuldavanda heimilanna. Þau úrræði sem eru í bígerð núna eru á verksviði dómsmálaráðherra. Í dómsmálaráðuneytinu er unnið að frekari styrkingu á greiðsluaðlögunarlöggjöfinni. Ég á þar af leiðandi von á því að við getum náð að setjast yfir það fljótlega en ræð svo sem ekki öllum tímasetningum í því efni.

Þau atriði sem að öðru leyti eru á verksviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins eru í vinnslu og ég vonast til að við getum átt gott samstarf og samtöl um breytingar mjög fljótlega. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur núna að nýta þetta tækifæri og styrkja greiðsluaðlögunarúrræðin verulega. Það eru að koma upp vandamál í framkvæmd hinnar sértæku skuldaaðlögunar sem við komum á fyrir jólin vegna þess að það eru ekki nógu sterk þvingunarúrræði í samningaferlinu við kröfuhafana. Ég held að það skipti máli að við komum aðstoð við skuldara í sterkara og skýrara form. Ég held að til þurfi að koma opinber stofnun sem haldi utan um málefni skuldara sem eru í vanda og þurfa á samningum að halda við kröfuhafa, og að á vegum þeirrar opinberu stofnunar eigi skuldari aðgang að umsjónarmanni sem sé fulltrúi hans og umboðsmaður í samningum við kröfuhafa og aðstoði hann við að ná fram eðlilegum nauðasamningum og stilli þar með kröfuhöfum með ákveðnum hætti upp við vegg. Ég held að það sé mjög mikilvægt næsta skref fyrir okkur og sé brýnasta úrlausnarefnið hjá okkur.