138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

snjómokstur í Árneshreppi.

[10:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er best að ég nýti mér það að ekki hafa fleiri kvatt sér hljóðs og mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra.

Á haustdögum tók ég upp mál í þinginu sem sneri að litlum hreppi norður á Ströndum er heitir Árneshreppur, um snjómokstur í Árneshreppi. (Gripið fram í.) Staðan í þeim hreppi er með þeim hætti núna að þangað er ófært, þangað komast ekki bílar, þangað er ekki hægt að flytja aðföng. Snjómokstri var heitið fram að áramótum og það yrði skoðað eftir áramót, eins og samgönguráðherra komst að orði fyrir áramót.

Nú er það svo að íbúar í þessum litla hreppi eru ekki mjög margir og eiga erfitt með að láta í sér heyra (Gripið fram í: Nei.) á hinu háa Alþingi og eiga erfitt með að ná til samgönguráðherra í það minnsta. Þeir hafa ekki fengið jákvætt svar frá samgönguyfirvöldum um það hvort mokað verði í Árneshreppi þrátt fyrir að þúsundir manna skrifi nú undir áskorunarsíðu á internetinu til samgönguráðherra um að verða við þessu. Mig langar til að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort honum finnist eðlilegt að eitt sveitarfélag, þrátt fyrir að það sé lítið, búi við svo skertar samgöngur og hvort hann muni ekki gera það sem í hans valdi stendur til að bregðast við þessu og það verði mokað í Árneshreppi strax í fyrramálið.