138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

atvinnuuppbygging.

[11:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt að hengja einhverjar tafir í orkuframkvæmdum um hálsinn á hæstv. umhverfisráðherra. Ég ætla ekki að svara því hér. Hv. þingmaður veit að úrskurður um Suðvesturlínu er kominn. Hann er jákvæður. Á hverju strandar þá? Strandar enn þá á úrskurðum umhverfisráðherra? Nei, vegna þess að vandinn er miklu stærri en það og hv. þingmenn hafa ekki viljað horfast í augu við vandann. (Gripið fram í.)

Út af hverju stöndum við í þessum sporum? Það er vegna þess að efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins hrundi og þegar þarf að fjármagna stórframkvæmdir (Gripið fram í.) erum við eðlilega í vanda. (Gripið fram í: 3.000 …) Það er það sem við horfumst í augu við. Það strandar ekki lengur á Suðvesturlínu. (Gripið fram í: Jú.) Það strandar ekki lengur á henni (Gripið fram í.) þannig að hv. þingmaður verður að fara að horfast í augu við raunveruleikann. Eingöngu þannig komumst við áfram. Við erum á fullri ferð að vinna að því að greiða fyrir fjármögnun (Forseti hringir.) þessara orkuframkvæmda. Það er þar sem strandar en ekki á þessum málum sem hv. þingmenn eru að reyna að (Forseti hringir.) draga hér upp til að breiða yfir raunverulegan vanda sem þeir bera ábyrgð á. (Gripið fram í.)