138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir að vekja máls á því mikla samfélagsmeini sem atvinnuleysi er. Þetta er eitthvert brýnasta verkefni okkar núna í þessari efnahagsniðursveiflu, hvernig við tökum á þessu máli, og það er alveg rétt sem hún rakti í ræðu sinni, þessi stórfelldi atvinnuleysisvandi er nýtt úrlausnarefni fyrir okkur hér á landi. Ég held líka að við höfum að hluta til kannski verið vernduð gagnvart þessu en eftir því sem samfélagið verður fjölbreyttara og atvinnulífið fjölþættara kann þessi vandi líka að verða okkur erfiðari úrlausnar en sambærilegur vandi hefur verið áður í sögu okkar þegar atvinnulífið var einhæfara og vandinn ekki eins fjölþættur. 4.000 manns hafa verið atvinnulaus í meira en ár, það er hrikalega há tala. Um 20% af heildarfjölda atvinnulausra eru ungt fólk, rúmlega 3.000 manns, og það er líka hrikalega há tala.

Við höfum markað þá stefnu að ekki líði meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur missir vinnu þar til hann fái tilboð um vinnumarkaðsúrræði af einhverju tagi, Vinnumálastofnun hafi samband við hvern og einn og boði fólk í viðtal og ráðgjöf. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns að auðvitað dundi mikið á Vinnumálastofnun í fyrra og er rétt að hér komi fram mikið þakklæti og hrós til starfsfólks stofnunarinnar sem vann alveg ótrúlega vel úr þeirri erfiðu stöðu þegar nýskráningum fjölgaði mjög hratt og höfuðáhersla stofnunarinnar á þeim tíma fór í að greiða úr þeirri óreiðu og tryggja að fólk fengi bætur sínar. Það hefur tekist. Núna leggjum við höfuðáherslu á að koma fólki til virkni og til starfa. Við stefnum á að þessu markmiði, að þrír mánuðir líði að hámarki áður en fólk fái tilboð um vinnu eða virkni, verði náð 1. apríl fyrir fólk undir 25 ára aldri og 1. september fyrir það sem er eldra. Við höfum fjölgað verulega ráðgjöfum í kjölfar átaksins fyrir ungt fólk og það gefur okkur vonir um að við munum ná þessum markmiðum. Við höfum á grundvelli þess átaks, fyrir unga fólkið, þegar gert samninga fyrir um 1.500 ungmenni við ýmsa aðila og stefnum að því að koma 2.400 ungmennum til verka á þessu ári. Þúsund manns eru nú þegar komin í úrræði frá því að við hófum átakið 1. janúar sem ég kalla ótrúlegan árangur. Samhliða skapast auðvitað meira rými hjá öðrum ráðgjöfum Vinnumálastofnunar til að vinna í hinum eldri hópi.

Við höfum ekki getað eyrnamerkt sérstakt fjármagn til stórfelldra aðgerða gagnvart þeim sem eru 25 ára og eldri. Við vörðum þó fjárveitingar til Vinnumálastofnunar og jukum við þær á fjárlögum. Hún var eina stofnunin sem fékk aukningu á fjárheimildum milli ára. Við höfum gert sáttarsamninga við Kvasir og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um ráðgjöf við atvinnuleitendur hjá símenntunarmiðstöðvum. Við höfum gert samstarfssamning við Iðuna fræðslusetur og fræðslusetrið Starfsmennt um ráðgjöf við atvinnulausa félagsmenn stéttarfélaga sem eiga aðild að þessum fræðslumiðstöðvum. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar beina atvinnuleitendum í slíka ráðgjöf. Svo erum við í samstarfi við fjölda aðila um vinnumarkaðsúrræði fyrir 25 ára og eldri, sveitarfélög vegna átaksverkefna og ýmiss konar aðila sem vinna að öðrum verkefnum. Við erum líka búin að gera samninga við einstaklinga um þróun eigin viðskiptahugmynda auk samninga við sprotafyrirtæki um að ráða til sín fólk að sinna nýsköpun. Á árinu 2009 voru í heildina nærri 4.000 manns í virkum vinnumarkaðsaðgerðum á vegum Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu einu.

Við erum með í bígerð samstarf við Starfsendurhæfingarsjóð um átak í málefnum langtímaatvinnulausra, þ.e. þeirra sem hafa verið atvinnulausir í ár eða lengur, þannig að þeir hjálpa okkur við að veita þeim aðstoð sem þurfa umtalsverðrar aðstoðar við eftir að hafa verið svona lengi atvinnulausir. Það kann að vera að fólk þarfnist mikillar aðstoðar við þær aðstæður.

Síðan þurfum við auðvitað að vinna með fyrirtækjunum að því að skapa rúm fyrir fólk. Við þurfum fleiri pláss. Við þurfum á því að halda að fleiri taki þátt með okkur og skapi þær eðlilegu væntingar að við munum öll þurfa að taka saman á til að koma fólki aftur til virkni eftir svona mikið atvinnuleysi. Við munum þurfa að tileinka okkur það viðhorf að það sé regla frekar en undantekning að fólk eigi erfitt uppdráttar í byrjun, eigi erfitt með að komast aftur út á vinnumarkað. Við verðum að sýna því skilning og við verðum að búa í haginn fyrir fólk að eiga (Forseti hringir.) greiða leið aftur inn á vinnumarkaðinn með þeim hætti.