138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Atvinnuleysi er mesta böl samfélagsins. Í janúar voru 14.705 Íslendingar án atvinnu. Þeim hafði fjölgað um 929 frá því í desember. Aðgerðir gagnvart þessu fólki eiga að snúast um atvinnusköpun. Í stöðugleikasáttmálanum segir að unnið verði skipulega að úrvinnslu áforma um stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra. Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir og stefnt skuli að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september.

ASÍ segir: Við þetta hafa stjórnvöld ekki staðið og lítið sem ekkert rætt við lífeyrissjóðina um hugmyndir, hvað þá framkvæmdir. Umhverfisráðherra hefur lagt stein í götu framkvæmda við álver í Helguvík, virkjana í Neðri-Þjórsá og fleira má telja til. Fram kom á miðstjórnarfundi ASÍ megn óánægja með áhugaleysi ríkisstjórnarinnar og framgang stöðugleikasáttmálans. Nú virðist ríkisstjórnin vilja sem minnst af króganum vita, þetta sé óásættanleg staða þegar atvinnuleysi fer vaxandi og sífellt fleiri heimili stefna í þrot. Aðgerða stjórnvalda er krafist.

Samtök atvinnulífsins segja í sinni bókun, með leyfi forseta:

„Með aðgerðum eða aðgerðaleysi sínu er ríkisstjórnin að tryggja minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt almennings og takmarkar getu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðarkerfið í landinu.“

Þetta eru einkunnir, virðulegi forseti, aðila vinnumarkaðarins um þessa ríkisstjórn. Virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart aðilum vinnumarkaðarins kristallaðist í orðum félagsmálaráðherra þegar hann kallaði útgerðarfólk spilafífl og apaketti í viðtali í Fréttablaðinu um helgina.

Við getum rætt endalaust um til hvaða aðgerða er verið að grípa og hvaða félagslegu úrræði við ætlum að nota gagnvart skuldugum heimilum og atvinnulausum einstaklingum en þau úrræði verða að engu ef við sköpum ekki atvinnu í þessu landi, aukum ekki verðmætasköpun þannig að samfélagið geti staðið (Forseti hringir.) undir þessu. Það eru hin einu raunhæfu úrræði, virðulegi forseti.