138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:21]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í kringum hvern einstakling sem missir vinnuna eru aðrir sem eru honum háðir þannig að miklu fleiri eiga í hlut en þeir einir sem missa atvinnu sína. Þegar þeir eru orðnir tæplega 15.000 eins og nú er má ætla að atvinnuleysið sé farið að hafa áhrif á líf tugþúsunda einstaklinga. Það er niðurbrjótandi að missa vinnuna, hver sem í hlut á, og félagslegar afleiðingar smitast síðan inn í samfélagið allt. Allt þetta þýðir að það er afar mikið á sig leggjandi til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og stuðla að nýrri atvinnuuppbyggingu. Það er þó ekki sama hvernig að atvinnuuppbyggingu er staðið, hún verður að vera sjálfbær til langrar framtíðar. Hún má ekki bitna á tækifærum komandi kynslóða, lífsgæðum eða náttúrugæðum.

Ríkisstjórnin hefur hleypt af stokkum ýmsum framsæknum úrræðum, ekki síst fyrir ungt fólk sem er brýnt og jákvætt. Heillavænlegt er að hugsa með margbreytileikann að leiðarljósi, hyggja að mörgum úrræðum og fjölbreyttum en ekki allsherjarlausninni sem allt of oft hefur reynst tálsýn eða í besta falli skammtímadeyfing. Þegar ég segi margt smátt horfi ég engu að síður til mannfrekra framkvæmda. Þannig gæti skipulagt og löngu þarft átak í viðhaldi opinberra mannvirkja veitt fjölda iðnaðarmanna vinnu og hjálpað til við að græða blæðandi sár í byggingariðnaði. Slíkar framkvæmdir gagnast landinu öllu.

En það er við fyrri þáttinn sem mig langar til að staðnæmast — hvernig komum við í veg fyrir aukið atvinnuleysi? Hvar eigum við að draga varnarlínur? Á hátíðarstundum og baráttudögum er talað um að verja kvennastörfin, umönnunarstörfin. Þessi ríkisstjórn er mynduð sem velferðarstjórn. Besta atvinnustefnan, besta atvinnuúrræðið er að mínu mati að ríkisstjórnin sé trú þessu grundvallarstefnumarkmiði sínu.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu í vikunni að komið væri að þanmörkum í niðurskurði innan velferðarþjónustunnar. Þetta þýðir að hætt er við því að frekari niðurskurður muni bitna á þjónustu- (Forseti hringir.) og umönnunarstörfum, störfum í þágu heilbrigðis og lífsgæða þjóðarinnar, þjóðarinnar sem enginn vill eða getur með góðu móti verið án. (Forseti hringir.) Það má ekki gleymast að velferðarmál eru atvinnumál og atvinnumál eru velferðarmál. Þar verðum við að draga skýra varnarlínu til að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi.