138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:29]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar kemur fram að 14.705 manns voru án atvinnu í janúar, heldur fleiri karlar en konur. Á sama vef eru auglýst 75 störf af ýmsum toga. Það er ánægjulegt að sjá að vinnumarkaðurinn er kvikur og þörf er fyrir vinnufúsar hendur en þessi 75 störf eru auðvitað bara brot þeirra starfa sem þörf er á fyrir þá sem ekki hafa atvinnu. Því er ánægjulegt að heyra um átak ríkisstjórnarinnar í atvinnusköpun sem hún boðaði á dögunum.

Við vitum að stór hluti þeirra sem nú er án atvinnu er í virkri atvinnuleit og mun komast í atvinnu á næstu mánuðum. En ákveðinn hópur fólks án atvinnu hefur verið það lengi og það getur verið afar erfitt að komast í virkni eftir langan tíma í vanvirkni. Þessi hópur þarf því afar persónulega og vandaða þjónustu til að komast smám saman í eðlilegt ferli í samfélaginu. Sá hópur sem ég hef mestar áhyggjur af er unga fólkið. 3.500 ungmenni 16–25 ára voru án atvinnu í janúar. 70% þeirra sem teljast langtímaatvinnulausir eru í þessum hópi. Þessi hópur er okkur afar dýrmætur og við megum alls ekki láta hann afskiptalausan. Það er því ánægjulegt að farið er af stað spennandi átak á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, Ungt fólk til athafna, og til þess verkefnis hefur verið varið 1,3 milljörðum kr.

Ég hef ákveðnar áhyggjur af þeim góðu úrræðum sem nú er boðið upp á fyrir þennan mikilvæga hóp. Að það verði lögð heldur mikil áhersla á að búa til glæsilegt hlaðborð menntunarúrræða og félagslegra úrræða en ekki lögð nógu mikil áhersla á leiðsögnina að borðinu, um réttina sem á borðinu eru, nýtingu þeirra og hvatningu til að fara aftur og prófa nýja rétti ef þeir fyrstu stóðu ekki undir væntingum. Jafnvel þarf að aðstoða fólk við að búa til sína eigin ef það er það sem hentar því best.

Það að vera ungmenni án atvinnu hefur örugglega afar slæm áhrif á sjálfsmyndina. Þessi ungmenni hafa mjög oft beðið skipbrot í skólakerfinu og því valið þá ágætu leið að fara út í atvinnulífið. Nú upplifir þessi hópur aðra höfnun þar sem atvinnulífið hefur ekki þörf fyrir krafta hans. Þetta upplifa þau svolítið hvert á sinn hátt og þurfa stuðning til að vinna sig út úr því (Forseti hringir.) hvert á sinn hátt. Það sem fyrst og fremst er árangursríkt til að auka virkni eru persónuleg samskipti hins atvinnulausa og aðila sem hann treystir fyrir sínum málum. Nýtum fjármagn (Forseti hringir.) í það verkefni.