138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

staða atvinnulausra.

[11:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það eru nokkur atriði sem ég vildi drepa á í lokin.

Í fyrsta lagi gætir nokkurs misskilnings ef það er upplifun fólks að kerfið vinni ekki fyrir fólk. Þvert á móti er ekki komið illa fram við fólk í þessu kerfi. Það er mjög sérkennilegt upplegg að halda að við séum að reyna að þvinga fólk allt í sama form, það er langt í frá. Fólk kýs yfirleitt ekki að synja starfi sem því er boðið vegna þess að almennt er reynt að bjóða því störf sem það hefur forsendur til að vinna. Það er ekki (Gripið fram í.) gúlagskerfi í gangi á Íslandi þar sem við reynum að moka fólki í störf sem það hefur enga forsendu eða þekkingu til að vinna, langt í frá. Það eru ekki mikil viðurlög miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar þar sem eru mun harðari viðurlög við því að synja starfi, í Danmörku t.d. þar sem menn falla alfarið út af bótum og þurfa að vinna sér inn nýjan rétt.

Það sem er mjög mikilvægt og hefur verið nefnt hér er jafningjafræðsla sem er mjög mikilvæg og sem við leggjum mikla áherslu á. Mörg af þeim verkefnum sem við erum að þróa núna byggja einmitt á því að menn nýta krafta atvinnulausra til að vinna með öðrum atvinnulausum. Það er t.d. grunnstef í verkefninu fyrir unga fólkið. Og verkefnið fyrir unga fólkið hefur vakið athygli víða í nágrannalöndum okkar fyrir nákvæmlega það hvernig við mætum fólki á þess eigin forsendum og leyfum því að ráða sjálfu hvað það vill og hvernig það vill þróa það.

Aðeins varðandi spurningu sem beint var til mín um hugmyndir um að setja atvinnuleysistryggingakerfið í hendur Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, þ.e. verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Við viljum mjög gjarnan nýta net verkalýðshreyfingarinnar til samskipta við félagsmenn en ég held að árangur okkar núna af því að eiga við þetta unga fólk og hvað við höfum getað sett mikinn kraft í það verkefni sanni að það eigi að vera á ábyrgð lýðræðislega kjörinna stjórnvalda (Forseti hringir.) að stjórna þessum málum. Ég held ekki að við leysum nokkurn skapaðan hlut með því að fela þessi verkefni einhverjum aðilum úti í bæ, hvort sem það eru aðilar vinnumarkaðarins eða einhverjir aðrir. (Forseti hringir.) Ég held að þessum málum sé best komið í höndum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda. Reynslan hefur sýnt það. Við viljum eiga mjög gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins um útfærslur og verklag í því.