138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[12:17]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum. Er ánægjulegt að sjá hversu pólitísk samstaða virðist vera um málið enda málið afar þarft og mikilvægt. Það fær vonandi brautargengi sem allra hraðast hér í gegnum stofnanir þingsins. Markmið þessarar tillögu er það að aðstoða fyrirtæki og þá kannski sérstaklega lítil fyrirtæki og einyrkja í greiðsluerfiðleikum við endurskipulagningu eða lokun. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé tekið fram að það er ekki bara endurskipulagning heldur einmitt þetta ferli að það getur verið að besta lausnin sé að hætta rekstri og þá hvernig best er að gera það. Hér er líka rætt um það hvernig þessi ráðgjafarstofa mundi vinna. Hún mundi aðstoða við að yfirfara rekstur, semja við lánardrottna og taka þessa ákvörðun um að halda áfram eða hætta.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að sjá það í greinargerð með tillögunni að það sé mikilvægt að þessi ráðgjafarstofa mundi vinna mjög náið með öðru stuðningskerfi við atvinnulífið og með dómskerfinu. Mér finnst tilvalið að skoða þann möguleika að þessi ráðgjafarstofa vinni einnig með ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

Það skiptir líka afar miklu máli, og ég vil leggja mikla áherslu á það, að hér er tiltekið að gert sé ráð fyrir starfsemi um allt land. Þar er náttúrlega hægt að ná ákveðnum samlegðaráhrifum með því að vinna með atvinnuþróunarfélögum og nýsköpunarmiðstöðvum eins og þeir aðilar sem hér veita umsagnir benda á.

Allar umsagnir eru mjög jákvæðar. Ríkisskattstjóri bendir á hversu mikilvægt það er að ná þessari endurskipulagningu til að koma í veg fyrir að skattgreiðslur fyrirtækja tapist vegna þrotameðferðar, sem skiptir mjög miklu máli. Creditinfo bendir á hversu miklu máli skiptir að flýta þessu ferli sem nokkur kostur er. Allar þessar umsagnir benda í einu og öllu á það hversu mikilvægt þetta er.

Mér finnst við hér vera að ræða málefni sem tengist utandagskrárumræðum hér áðan, um það hversu atvinnuleysi er mikið samfélagslegt böl. Það skiptir mjög miklu máli að hjálpa fyrirtækjum að endurskipuleggja sig þannig að þau geti áfram haldið uppi atvinnustigi vítt og breitt um landið. Í tengslum við það sem við erum að ræða um verklagsreglur fjármálafyrirtækja gætum við jafnvel reynt að setja inn ákvæði um það að samræmi, jafnrétti og siðferðisleg ábyrgð ráði ríkjum í þessari ágætu tillögu.

Ég fagna þessari tillögu og þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að taka frumkvæði í málinu. Ég vona að það fái jákvæða umfjöllun.