138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[12:57]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var því lýst yfir fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins að það væri ánægja með að fá fram í dagsljósið gögnin um þetta mál, það væri bara slæmt að vera að þessu núna. Sjálfstæðisflokkurinn var líka á móti þessu árið 2004 og aftur árið 2006. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei talið réttu stundina til að fara í þessa rannsókn. Það voru sett fram þingmál og lagt til að sett yrði á fót rannsóknarnefnd.

Hins vegar fagna ég yfirlýsingum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að það sé eðlilegt að fá gögnin fram í dagsljósið og að þetta eigi að verða til þess að efla þingið sem eftirlitsaðila og sem löggjafa. Það er gott og rétt. Síðan sýndi hún með málflutningi sínum fram á nauðsyn þess að fara í þessa rannsókn. Hún minnti okkur á þau álitamál sem voru uppi. Við mörg héldum því fram, og gerum enn, að utanríkismálanefnd Alþingis hafi ekki verið upplýst lögum samkvæmt. Við héldum því fram að veitt hefði verið vilyrði fyrir því að við værum sett á listann. Hún vefengir það. Við vorum ekki beinir þátttakendur í stríðinu, segir hv. þingmaður. Mér hefur alltaf fundist aumasta hlutskipti okkar vera það að vera herlaus en styðja það að hernaðarþjóðirnar sendi sína ungu menn og drengi (Forseti hringir.) í hernað. Það finnst mér aumasta hlutskiptið af þessu öllu. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Finnst þingmanninum eðlilegt að við skyldum eiga hlutdeild að þessari innrás? (Forseti hringir.) Nú eru flestar þjóðir að lýsa því yfir að þær hafi ekki haft réttar upplýsingar á borðinu, en er Sjálfstæðisflokkurinn enn þá á þessu máli? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)