138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hnaut um að það sé aumast af því að við erum herlaus, þá megum við ekki hafa skoðanir á neinu. Það eru nákvæmlega svona skoðanir sem eru svo hættulegar varðandi það að við sendum ekki skýr skilaboð til fasistastjórna og nasistastjórna fyrri tíma og nútíðar. Íslendingar eiga að hafa skoðun á því þrátt fyrir að við séum herlaus. Við eigum að hafa skoðanir á því þegar fasistar og nasistar fyrri tíma og nútíðar eru við völd og við eigum ekki að skammast okkar fyrir það.

Síðan kemur þulan um að lögum samkvæmt hefði átt að hafa samstarf við utanríkismálanefnd. Ég er einmitt að segja það, við eigum að endurskoða hvernig samskiptum utanríkismálanefndar við ríkisstjórn er háttað og ég styð að það hlutverk verði eflt. Ég spyr hv. þingmann á móti: Hefði honum ekki þótt eðlilegt að ríkisstjórn Íslands 4. júní á sl. ári, 2009, hefði upplýst utanríkismálanefnd um þennan ægisamning, Icesave, sem við erum öll sammála um, ekki síst hv. þm. Ögmundur Jónasson og ég, að er vondur samningur? Hefði ekki verið rétt af ríkisstjórn Íslands á þeim tíma að upplýsa utanríkismálanefnd daginn áður en samningamaður Íslands skrifaði undir Icesave um að það ætti að fara að gerast? Hefði það ekki verið eðlilegt?

Þetta er allt af sama meiði, það er spurningin um hvað ríkisstjórn má gera og hvað hún má ekki gera. Það er eins og menn hugsi ekki um að hér liggur fyrir lögfræðiálit frá Eiríki Tómassyni, mætum lögfræðingi og reynslumiklum, sem segir: Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var lögmæt, hún var í gildi miðað við íslensk lög og íslenskar hefðir. Meðal annars er vísað til Kósóvó og þeirra stjórnskipunarreglna sem gilda í landinu. Hún var lögmæt en að sjálfsögðu var hún umdeilanleg, ég ætla ekki að draga dul á það. Þetta var umdeilanleg ákvörðun en hún var tekin. (Forseti hringir.) Hún var tekin í ljósi þess að við höfum haft reynslu af (Forseti hringir.) samskiptum við þjóðir eins og Breta og Bandaríkjamenn og við höfum fram til þessa (Forseti hringir.) skipað okkur í sveit með þeim.