138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:06]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við verðum vitni að býsna sögulegum tíðindum hér í dag. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, lýsti því yfir áðan að Sjálfstæðisflokkurinn mundi að sjálfsögðu styðja þetta mál ef það ætti að afgreiða það út úr þinginu og að Sjálfstæðisflokkurinn mundi að sjálfsögðu setja fulltrúa sinn í rannsóknarnefnd Alþingis ef ákveðið yrði að setja þessa rannsóknarnefnd á laggirnar.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég fagna sérstaklega þessari yfirlýsingu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að þetta er í andstöðu við það sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, hefur haldið fram allan tímann, að það sé engin þörf á því að skoða þessa ákvörðun ofan í kjölinn, hvað þá að setja á laggirnar einhvers konar rannsóknarnefnd um þetta mál. Ég fagna þessum sinnaskiptum Sjálfstæðisflokksins og varaformanns flokksins og vil nota þetta tækifæri til þess að spyrja hv. þingmann hvort þetta hafi ekki verið réttur skilningur hjá mér. Ég skrifaði þetta niður eftir henni, að Sjálfstæðisflokkurinn mundi styðja þetta mál fengi það framgang í þinginu. Mér finnast það býsna mikil tíðindi. Það stefnir í að við náum að afgreiða þessar tillögur okkar þingmanna sem að málinu standa út úr utanríkismálanefnd og inn í þingið og í fyrsta skipti í þingsögunni fengjum við þá þingmannanefnd, rannsóknarnefnd til þess að skoða einstök mál. Eins og ég segi, frú forseti, ég vildi bara inna hv. þingmann eftir því hvort þessi skilningur minn væri ekki réttur sem ég skrifaði (Forseti hringir.) eftir hennar fyrri ræðu.