138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:10]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að fá það staðfest af hálfu varaformanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, að Sjálfstæðisflokkurinn muni að sjálfsögðu taka sæti í þessari rannsóknarnefnd, verði hún sett á laggirnar. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í ræðu minni, af því að hv. þingmaður sagði að það vantaði ekkert upp á að upplýsa málið: Það vantar ekkert upp á að upplýsa að það voru tveir menn sem tóku þessa ákvörðun, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafa báðir viðurkennt það. Það er hins vegar ekki sú spurning sem við erum að fást við núna heldur: Hvernig stóð á því að þessir aðilar gátu tekið þessa ákvörðun? Það er aðdragandinn að þessari ákvarðanatöku sem við erum að fást við núna.

Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður sagði að það liggur fyrir álit lögmanns um að það hafi verið fyllilega lögmætt að fara þessa leið samkvæmt stjórnarskránni. En það var ekki rétt að málum staðið varðandi t.d. samráð við utanríkismálanefnd í þessu máli, eins og hv. þingmaður hefur komið inn á, og það var ekki staðið rétt að málum varðandi hvernig íslenskur almenningur var upplýstur um þessa ákvörðun og að íslenskur almenningur skyldi þurfa að lesa og heyra um það í erlendum fjölmiðlum.

Síðan segir hv. þingmaður að þingmenn hafi eitthvað þarfara að gera en að flytja mál af þessu tagi og er mjög tíðrætt um forgangsröðun. Á þessum vinnustað eru flutt fjölmörg mál og að flutningur eins máls sé ómerkilegri en annar er málflutningur sem ég vísa alfarið á bug. Eitt útilokar ekki annað. Þetta mál er partur af ákveðinni hreingerningu og tiltekt sem við Íslendingar verðum að fara í varðandi okkar fortíð (Forseti hringir.) svo að við getum lært af sögunni og endurtökum ekki þau mistök (Forseti hringir.) sem m.a. voru gerð í þessu máli.