138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála því, það verður að fara yfir margt í sögunni til þess að læra af mistökunum og ég vona að þegar við stöndum frammi fyrir rannsóknarskýrslunni munum við öll læra af mistökunum til þess að koma í veg fyrir að þau gerist aftur. Það má vel vera að þetta sé tilgangurinn og hugsunin hjá hv. þingmanni varðandi tillöguflutning í þessu máli. Málið er hins vegar að þegar dregið er fram að tveir menn tóku þessa ákvörðun þá liggur fyrir í íslenskri stjórnskipan, hvort sem það er umdeilanlegt eða ekki, að þeir höfðu þessa heimild. Það liggur fyrir lögfræðiálit um að þeir höfðu þessa heimild. Í sama lögfræðiáliti liggur líka fyrir að þeir stóðu rétt að varðandi utanríkismálanefnd. (Gripið fram í.)

Þess vegna tel ég að það sé miklu frekar nákvæmlega sá punktur sem við eigum að spyrja okkur að: Er æskilegt til lengri tíma litið að tveir menn geti tekið svona ákvörðun? Þeir höfðu rétt og heimild til þess að sínum tíma. Ég vil miklu frekar til lengri tíma og upp á framtíðina spyrja: Er rétt að einn, tveir eða þrír menn geti tekið svona ákvörðun án þess að vera í samráði við þingið? (SVÓ: Nákvæmlega.) Ég held að við eigum miklu frekar að vinna þetta þannig og þess vegna eigum við að skoða málin heildstætt, ekki bara út frá Íraksstríðinu heldur hvernig við getum bætt starfshætti þings og ríkisstjórnar þannig að það verði komið í veg fyrir ákveðna hluti eða aðrir ákveðnir hlutir studdir. Við þurfum að styðja við þingið. Það gerum við ekki með því að pikka út eitt og eitt mál sem hentar pólitískum hagsmunum nútímans, við þurfum að hugsa um framtíðina í þessu máli. Þess vegna segi ég: Ég vil að við förum í það saman að efla þingið og nefndirnar þannig að þingið geti staðið undir því að vera löggjafaraðili. Ég er ekki sannfærð um að þetta sé rétta leiðin. Ég vil miklu frekar sjá það á heildstæðari grunni.