138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Um nokkurra missira skeið hefur verið uppi ágreiningur um lögmæti svokallaðra gengistryggðra lána sem íslenskar fjármálastofnanir hafa veitt viðskiptavinum sínum á liðnum árum. Hagsmunasamtök heimilanna, talsmaður neytenda og fjölmargir aðrir hafa ítrekað bent á vafasama lagalega stöðu þessara fjármálagjörninga og hvatt stjórnvöld til að grípa inn í til að eyða þeirri gríðarlegu fjárhagslegu óvissu sem tugþúsundir einstaklinga og fyrirtækja búa við vegna þessara lána.

Þann 12. febrúar sl. féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem ákvæði lánasamningsins um gengistryggingu voru dæmd ólögmæt þar sem lánið hafði verið veitt í íslenskum krónum. Því er ljóst að málstaður þeirra sem efast hafa um lögmæti gengistryggðra lána hefur styrkst mjög á síðustu dögum. Réttaróvissunni verður þó ekki eytt fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm, og þangað til mun stór hluti þjóðarinnar búa við algjöra óvissu um fjárhagslega stöðu sína.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra virðist undarlega sinnulaus um þetta mál. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og tilmæli um aðgerðir hefur hann vísað frá sér allri ábyrgð á málinu og bent á bankana. Enginn áhugi var á því innan ríkisstjórnarinnar að taka á þessum málum, jafnvel ekki á meðan ríkið fór með forræði stærstu viðskiptabankanna þriggja.

Eftir dóminn sem féll á föstudaginn voru einu viðbrögð hæstv. ráðherra þau að benda fólki á að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Hann taldi m.a.s. að færi svo að Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms yrðu áhrifin engin því að greiðslujöfnun bankanna leysti allan vanda þeirra sem sitja uppi með stökkbreytt gengistryggð lán.

Það sorglega er hins vegar að almenningur hefur ekki efni á að bíða og þaðan af síður að standa í kostnaðarsömum málaferlum við fjármálastofnanir. Á meðan sætir hann upptöku eigna til fullnustu lánasamninga sem hugsanlega eru ólöglegir.

Það er ekki eins og að ráðherra hafi ekki ítrekað verið bent á þennan vanda. Þannig sendi talsmaður neytenda fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í október í fyrra um hvort ráðuneytið hefði aflað lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána. Engin svör hafa enn þá borist frá ráðuneytinu. Því hlýt ég að spyrja hvort ráðuneytið hafi aflað slíks lögfræðiálits. Ef svo er ekki vakna spurningar um hvort ráðherra hafi ekki sýnt vanrækslu í starfi. Ljóst er að við uppgjör ríkisins á kröfuhafa hinna föllnu banka við einkavæðinguna hina síðari, sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stóð fyrir í fyrra, voru gríðarlegir hagsmunir í húfi við mat á þeim eignum sem færðar voru á milli gömlu og nýju bankanna. Hafi ráðuneytið hins vegar aflað slíks lögfræðiálits en látið hjá líða að gera það opinbert hlýtur það einnig að teljast vanræksla í starfi.

Því hlýtur ráðherra að upplýsa nú hvort slíks álits hafi verið aflað. Ef ekki hlýtur ráðherra jafnframt að skýra hvers vegna það var ekki gert. Ef slíkt álit liggur fyrir hlýtur ráðherra jafnframt að skýra hvers vegna það hefur ekki verið lagt fram.

Í viðtölum við fjölmiðla lýsti ráðherra því einnig yfir að allir væru sammála um að erlend lán væru lögleg hér á landi. Í því ljósi er athyglisvert að skoða lögskýringar við 1. gr. laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. […]

Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.“

Þess vegna óska ég eftir að ráðherra upplýsi hérna, fyrir framan Alþingi, hver hans skilgreining er. Hver er skilningur hans á því hvað er erlent lán og hvað er innlent lán?