138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[13:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Erlend lán og sá dómur sem hefur verið hér til umræðu er að sjálfsögðu mjög stórt og mikið mál sem þarf að fara yfir. Því er mikilvægt að það frumvarp sem hv. þm. Eygló Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður að fái fljóta og örugga meðferð í gegnum þingið þannig að tryggja megi að þeir sem vilja leita réttar síns þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir því að dómstólar hafi tækifæri til að fjalla um þeirra mál.

Það sem er æpandi í allri þessari umræðu um lán til heimila og fyrirtækja, bílalán og annað er sinnuleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda fyrir hóp skuldara, fyrir þá sem skulda, fyrir heimilin og fyrir þá aðila sem eru með bílalán. Það sýnir sig best að þegar stjórnarþingmenn eru spurðir út í það í útvarpinu hvað hafi verið gert verður fátt um svör. Þeir geta lítið bent á árangur eða aðgerðir sem einhverju skipta.

Í samfélaginu varð forsendubrestur sem ekki hefur enn þá verið tekið tillit til varðandi þá er skulda. Allt hefur verið gert sem hægt er að mínu viti til að reyna að verja hag fjármagnseigenda og þeirra sem eiga aura. Það á eftir að gera eitthvert gagn fyrir skuldarana sem eru flest heimilin og fjölskyldurnar. Það þarf að grípa til almennra aðgerða, frú forseti, það þarf að fara í þennan forsendubrest sem varð og hætta að horfa hjá eins og þetta lagist bara með tímanum. Það þýðir ekki að segja að þeir sem tóku erlend lán hafi gert það eingöngu til að „gambla“. Þetta er fólk sem var að flýja umhverfi sem var óásættanlegt, vaxtaumhverfi sem ekki var fólki bjóðandi.

Frú forseti. Tíminn líður hratt. Í kvöld er fundur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í Iðnó. Ég hvet þingmenn sem það mögulega geta og aðra til að fjölmenna á þann fund og sýna baráttu þeirra stuðning í verki því að þar eru á ferðinni samtök sem svo sannarlega bera hag heimilanna fyrir brjósti.