138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

gengistryggð lán.

[14:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna eftir að hafa hlustað á svör hæstv. ráðherra að ég hef miklar áhyggjur af ranghugmyndum ráðherrans. Þær birtast m.a. í því að ráðherrann heldur því fram að þó að Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms verði áhrifin engin því að greiðslujöfnun bankanna leysi allan vanda þeirra sem sitja uppi með stökkbreytt gengistryggð lán þannig að með núverandi úrræðum geti fólk bara lækkað greiðslubyrðina nú þegar, það skipti engu máli hver höfuðstóll lánanna er. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta.

Þetta hefur svo sem birst í fleiri málum þar sem útreikningur greiðslubyrði er lausn allra mála og höfuðstóll og heildarskuldabyrði þeirra skipta engu máli. Þannig má jafnvel færa rök fyrir því að nákvæmlega þessar ranghugmyndir hafi verið einn af grundvöllum útrásarinnar og það sem setti íslenskt hagkerfi á hliðina. Það sorglega er að þessar ranghugmyndir ráðherrans koma á engan hátt í veg fyrir fjölda gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja sem sætt hafa upptöku eigna til fullnustu lánasamningum sem hugsanlega eru ólöglegir.

Ég ítreka líka fyrri spurningar mínar um lögfræðiálitið sem talsmaður neytenda kallaði eftir. Hann spurði hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefði óskað eftir því að gert yrði álit á því hvort þessir lánasamningar væru löglegir eða ekki. Ég lýsi líka yfir áhyggjum mínum af því að svo virðist sem hugsanlega sé þetta lögfræðiálit ekki til í ráðuneytinu — sem gæti kannski verið skýring á því af hverju ráðherrann virðist ekki skilja spurningar mínar um muninn á innlendum og erlendum lánum. Hann gerir sér kannski grein fyrir því þegar dómur verður fallinn í því máli því að mér skilst að það sé líka komið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.