138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:17]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hans og að blanda sér í þessa umræðu. Ég held að í þessari sóknaráætlun sé verið að setja fram mjög áhugavert tækifæri fyrir landið í heild og einstaka landshluta. Það er spurt um hvaðan fyrirmyndin er sótt. Hún er m.a. sótt til Danmerkur en ekki síður til Írlands þar sem slíkar áætlanir voru unnar og hefur mjög vel til tekist. Þeir sem hafa unnið þessa áætlun og verið þar í forustu hafa m.a. heimsótt Írland í því skyni að fara yfir verkefnið og hvernig það var unnið af þeirra hálfu. Það er því ekki síst þaðan sem hugmyndin er sótt og síðan til Danmerkur.

Um það hvort þetta sé hluti af Evrópusambandinu og þeirri áætlun sem hv. þingmaður vísaði í þá er það ekki.