138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf alveg sérstaka umræðu um hvernig byggja eigi upp skattkerfið. Þar takast á ýmis sjónarmið sem er þess virði að ræða og skoða. En við þær aðstæður sem mynduðust á Íslandi þegar bankakerfi þjóðarinnar hrundi til grunna, og af því einu saman varð reyndar alveg gríðarlegur samdráttur, varð ljóst að mjög þurfti að draga saman útgjöld ríkissjóðs vegna tekjutaps sem var fyrirsjáanlegt. Sá samdráttur í ríkisútgjöldum kallaði á enn meiri samdrátt í þjóðarframleiðslunni.

Fyrir lá einnig að heimili landsins voru mjög skuldug, skuldir heimilanna höfðu hækkað alveg gríðarlega vegna falls bankanna og hruns gengisins. Með öðrum orðum skertist kaupmátturinn og hefur verið að skerðast jafnt og þétt. Við slíkar aðstæður er mjög hættulegt að hækka skatta. Hvers vegna er það hættulegt? Jú, vegna þess að það bætir ofan á þann samdrátt sem varð vegna hruns bankanna, er orðinn vegna samdráttar í ríkisútgjöldum og er fyrirsjáanlegur vegna enn meiri samdráttar í ríkisútgjöldum á næstu mánuðum og missirum. Við slíkar aðstæður er mjög rangt, frú forseti, sama hvaða skoðanir menn hafa á því hvernig eigi að byggja skattkerfin upp, hvort þau eigi að vera þrepaskipt eða ekki þrepaskipt eða hvernig það nú er, að fara í skattahækkun ef menn eiga aðra möguleika.

Á það var bent í umræðu á Alþingi, m.a. með tillöguflutningi okkar sjálfstæðismanna þar sem við lögðum til leiðir sem eru færar, opnar, útreiknaðar og útfærðar til að koma í veg fyrir að við legðum þyngri byrðar á heimilin í landinu en nú þegar er orðið, að við gerðum heimilunum erfiðara með að standa í skilum með skuldir sínar og kaupa þá vöru og þjónustu sem ekki er hægt að vera án á hverjum degi. Það var kjarni tillögu Sjálfstæðisflokksins og við höfum varað við þessum skattahækkunum. Það kom greinilega fram hjá hæstv. fjármálaráðherra hér í dag að áhrifa skattahækkana er nú þegar farið að gæta í því að tekjur (Forseti hringir.) ríkissjóðs virðast vera farnar að dragast saman um leið.