138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[14:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur er alveg ofsalega sérkennilegur. Hv. þingmaður stóð hér í ræðustól áðan og ég hlustaði á ræðuna hans. Hann skal ekki halda öðru fram en að þessi ráðherra fylgist með. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns þar sem hann fjallaði um rósmælgi þessarar tillögu og sallaði hana síðan niður með því að segja að þetta væru fögur orð á blaði, ekkert annað en fögur orð á blaði. Það var dómur hv. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins um þá vinnu sem hefur átt sér stað um allt land hvað varðar sóknaráætlunina fyrir landshlutana. Hundruð manna hafa komið að henni og vinna að henni á hverjum einasta degi. Þetta var dómur þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, þetta væru bara rósmælgi og orð á blaði.

Það er þetta sem ég var að tala um áðan. Ég bað hv. þingmann um að ræða við mig efnislega um það sem felst í þessari tillögu. En nei, hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins á ekkert annað í vopnabúrinu en að reyna að taka hér niður persónu manns ef maður spyr hann efnislegrar spurningar. (Gripið fram í: Persón…) Það er það eina sem hv. þingflokksformaður getur gert. Hér var (Gripið fram í: Hann var …) haldið fram að ekki væri fylgst með, það er það sem ég á við. Ég bið sjálfstæðismenn, hv. þingmenn, að koma með okkur í þennan leiðangur vegna þess að hann er okkur mikilvægur. Það er líka gríðarlega margt fram undan í uppbyggingu í atvinnulífinu sem felst í því að bæta hér samkeppnishæfi þjóðarinnar sem þessi ríkisstjórn er að vinna að og er gerbreytt atvinnustefna.

Ég talaði um að atvinnustefna sjálfstæðismanna hefði verið tilviljanakennd og við værum að vinna okkur út úr henni í gegnum þessa áætlun. Það birtist m.a. í því að við erum líka að fara út úr því að gera fjárfestingarsamninga við einstaka fyrirtæki og erum að gera rammalöggjöf utan um þessar fjárfestingar til að koma okkur út úr ógagnsæju ferli, til þess að laða hingað erlenda fjárfesta, til þess að vera samkeppnishæf við okkar helstu samkeppnisþjóðir um þessa erlendu fjárfestingu. Það er það sem við erum að gera.

Við þurfum líka að horfa til þess að við ætlum (Forseti hringir.) okkur að koma okkur út úr þeim vanda sem við erum í með gjaldmiðilinn vegna þess að hv. þingmaður gleymir því að á vakt Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) í efnahagsmálum þjóðarinnar hrundi gjaldmiðillinn eftir langan feril hans, (Gripið fram í.) þess flokks við stjórn efnahagsmála hér í (Forseti hringir.) landinu. (JónG: Hver var þá í ríkisstjórn.) Það gerist auðvitað ekki yfir nótt, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Það má vel vera.) Og hv. þingmenn geta (Forseti hringir.) haldið áfram að ræða skatta, en tölum líka um gjaldmiðilinn vegna þess að þar er stóri vandinn. (IllG: … Ég held að það sé kominn tími til.)