138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég náði að hlusta á kannski 70% af ræðu hv. þingmanns, þurfti því miður að fara fram í áríðandi símtal en geri ráð fyrir að sá hluti hafi verið svipaður hinum hlutanum af ræðunni.

Mér finnst mjög merkilegt með sjálfstæðismenn í þessari umræðu um nýsköpun svæðis, samvinnu og fleira, sóknaráætlun fyrir Ísland, að ekki sé rætt nema í hálfa mínútu og síðan eru menn komnir út í hefðbundið pólitískt þras sjálfstæðismanna. Það er auðvitað allt í lagi og sjálfsagt að takast á við og ræða það vegna þess að, eins og við höfum áður sagt, efnahagshrunið er í boði Sjálfstæðisflokksins, gjaldþrota stefnu Sjálfstæðisflokksins sem menn kljást hér við og alla þá erfiðleika sem hafa fylgt henni.

Ég spyr bara, virðulegi forseti: Er ekkert jákvætt í hugum sjálfstæðismanna nú til dags? Hv. þingmaður talar um skattastefnuna. Við höfum heyrt það núna, bæði hjá formanni Sjálfstæðisflokksins og þingflokksformanni áðan, að þeir vildu ganga styttra í skattahækkunum og lengra í niðurskurði. Það er út af fyrir sig alveg sjónarmið en gaman væri að eiga umræðu við sjálfstæðismenn um hvar niðurskurður ætti að vera. Er t.d. hv. þm. Jón Gunnarsson sammála áliti Viðskiptaráðs um að stórskera skuli niður í samgönguframkvæmdum á Íslandi á þessu ári? Ég vona að hv. þingmaður taki eftir vegna þess að þetta er mikilvæg spurning. Er hann sammála áliti Viðskiptaráðs um að stórskera niður í samgöngumálum?

Ég vil segja líka að margt er að gerast í atvinnumálum þó að sjálfstæðismenn kjósi að setja upp hin neikvæðu gleraugu sem þeir eru með uppi nú til dags og sjá ekkert nema kolsvart fram undan. Eins og ég segi, virðulegi forseti, er kannski eðlilegt að sjálfstæðismenn sjái frekar svart fram undan vegna þess (Forseti hringir.) að þeir sjá svarta stefnu sína (Forseti hringir.) sem varð í raun og veru gjaldþrota og efnahagshrunið er í boði Sjálfstæðisflokksins.