138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, já, ég fer mikinn vegna þess að mér er heitt í hamsi yfir stöðu atvinnulífsins. Alvarlegasta meinið sem við stöndum frammi fyrir er það mikla atvinnuleysi sem er í landinu. Allar þær aðgerðir sem við tölum um gagnvart illa stöddum heimilum og atvinnulausum einstaklingum eiga að snúast um að skapa atvinnu og verðmæti. Það eru einu raunhæfu lausnirnar fyrir þetta fólk til lengri tíma litið.

Hv. þingmaður nefndi að gert hefði verið samkomulag við lífeyrissjóðina um byggingu nýs Landspítala. Það er líka það eina sem hefur verið gert með lífeyrissjóðunum. Hann fór síðan yfir það að menn væru að ræða fjármögnun á öðrum verkefnum. Það tekur allt of langan tíma og það er ekki bara að mínu mati heldur að mati aðila vinnumarkaðarins.

Síðan er farið yfir að hér sé verið að skapa þúsundir starfa, það standi til að skapa þúsundir starfa eftir hinum og þessum leiðum. Það er alveg það sama og ríkisstjórnin sendi frá sér 6. mars 2009, lofaði þúsundum starfa á þessu ári sem er að verða liðið. Það hefur ekkert gerst. Atvinnuleysi eykst og eykst, þessi störf láta á sér standa.

Bygging nýs Landspítala er auðvitað ekki verkefni sem hjálpar okkur í dag. Það þarf eflaust að byggja nýjan Landspítala. Ég hef haft miklar efasemdir um staðsetningu þess spítala. Menn hafa að mínu mati farið fram úr sér í ákvörðunum um það hvar hann eigi að vera. Menn hafa ekki litið til þess sem samgönguráðherra sagði í svari við mig um daginn um þann spítala, að sennilega þyrfti um 25 milljarða kr. í ákveðin samgöngumannvirki þannig að þetta er að mínu mati óraunhæft dæmi eins og staðan er.

Við verðum að horfa okkur nær í tíma og þar er allt of lítið að gerast. Það er það sem brennur á þessari þjóð og það er það sem brennur á aðilum vinnumarkaðarins. (Forseti hringir.) Það að tala eins og var gert 6. mars sl., rétt fyrir kosningar, lofa þjóðinni (Forseti hringir.) þúsundum starfa, slík loforð þolir þjóðin ekki lengur. Þjóðin vill fá aðgerðir.