138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:36]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag metnaðarfulla áætlun um mótun sameiginlegrar atvinnustefnu til framtíðar. Sjónarhornið er vítt og lágt. Horft er áratug fram í tímann og stefnan er sett á að ná til landsins alls en jafnframt draga fram helstu tækifæri og sóknarmöguleika einstakra landsvæða á sviði atvinnuuppbyggingar. Tilgangurinn er að snúa vörn í sókn í íslensku atvinnulífi, kortleggja styrkleika og sóknarfæri okkar í atvinnumálum og gera tillögur um aðgerðir á grundvelli þeirrar greiningar. Sérstök áhersla verður lögð á að greina hvernig auka megi samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði til að auka verðmætasköpun, draga af erlenda fjárfestingu og bæta lífskjör fyrir almenning í landinu.

Í þessu verkefni er mikil áhersla lögð á breiða samstöðu og aðkomu sem flestra við mótun þessarar stefnu. Þarna eiga hlut að máli fulltrúar hagsmuna- og félagasamtaka, aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar fræðasamfélagsins, einstakra atvinnugreina og síðast en ekki síst almennings. Haldnir verða átta almennir fundir í öllum landshlutum, fundir í anda þjóðfundarins sem heppnaðist svo vel sl. haust. Þrír þeirra hafa þegar verið haldnir, á Egilsstöðum, Ísafirði og Sauðárkróki. Aðsókn var dræm á fyrsta fundinn en á síðari fundina tvo hafa hins vegar mætt hátt í 100 gestir á hvorn fund. Auk þjóðfundanna hefur verið sett upp skipulag með aðkomu fjölmargra aðila vítt og breitt úr samfélaginu. Þar ber fyrst að nefna stýrihóp með aðild tíu aðila, þar með talið fimm ráðherra, embættismanna og ráðgjafa. Að auki hafa verið skipaðir verkefnishópar um einstök svið áætlunarinnar, svo sem samþættingu opinberra áætlana, gerð sóknaráætlana fyrir einstaka landshluta, mótun atvinnustefnu, samkeppnishæfni o.s.frv. Loks má nefna ráðgjafahóp sem skipaður er á fjórða tug einstaklinga, fulltrúum allra þingflokka hefur verið boðin aðild en auk þess eiga þar fulltrúa aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar sveitarfélaga, fræðasamfélagsins, nýsköpunargeirans o.s.frv.

Ég undirstrika að með þessu skipulagi er lögð áhersla á breytt eignarhald við mótun framtíðarstefnu í atvinnumálum Íslendinga. Það eitt er mikilvægt fyrsta skref og þótt það sé ekki nægjanlegt til að móta gagnlega stefnu þá er vikið frá hefð sem ég held að sé úrelt, þ.e. að stefnumótun stjórnvalda í lykilmálum verði til á borðum örfárra stjórnmálamanna og embættismanna í Stjórnarráðinu. Þess í stað er dregin upp mynd og skipulag af samráði, hugmyndasköpun og vinnu þúsunda einstaklinga í öllum hlutum landsins, einstaklinga með mismunandi bakgrunn úr ólíkum atvinnugreinum, ungra sem aldinna.

Ég held að eitt af því sem kom okkur á kaldan klaka fyrir fáum missirum síðan sé sú staðreynd að hér í landinu hefur aldrei verið mótuð heildstæð atvinnustefna með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í huga. Við höfum allt of lengi einblínt á eina eða fáar atvinnugreinar og treyst á að þær mundu skapa okkur þann auð og þau lífskjör sem dygðu til að halda uppi hagvexti og mannsæmandi lífi í landinu. Sú stefna hefur beðið skipbrot og það er hlutverk okkar sem hér erum, fulltrúa almennings og stjórnvalda á þessum tímum eftir bankahrunið mikla, að læra af þessari reynslu og reyna að byggja upp vandaðri stefnumótun til framtíðar sem tekur meira mið af því að nýta þá kosti sem búa í fjölmörgum atvinnugreinum en ekki örfáum.

Ég tel að sú fyrirætlun sem kemur fram í þessu verkefni sé mjög mikilvæg, að samþætta þær fjölmörgu áætlanir sem stjórnvöld hafa lagt fram og samþykkt í einstökum málum, samgönguáætlun, byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun, áætlanir í ferðamálum og orkubúskap þjóðarinnar svo nokkuð sé nefnt, auk jafnréttisáætlunar ekki síst. Þetta hefði auðvitað átt að gera fyrir lifandis löngu og þetta þurfum við að gera á öllum sviðum ríkisbúskaparins, þ.e. vinna betur saman þvert á ráðuneytin og færa okkur meira í átt til fjölskipaðs stjórnvalds. Verkefnið er einfaldlega svo risavaxið og margslungið að lausnirnar kalla á víðtækt samráð þar sem ólík sjónarhorn eru vegin saman þvert á málaflokka. Hér er lagt af stað með háleitar hugmyndir og markmið. Við skulum vissulega spyrja að leikslokum en hér er a.m.k. stigið merkilegt skref í átt til vandaðri stefnumótunar fyrir íslenskt samfélag.