138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:41]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ef opinberar spár ganga eftir og verði ekki gripið í taumana þurfum við að horfast í augu við aukið atvinnuleysi á árinu. Spár um 2% hagvöxt merkja áframhaldandi atvinnuleysi. Ef ekkert verður að gert mun atvinnuleysi aukast í 10–11% á árinu. Þróunin á vinnumarkaðnum er grafalvarleg en samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fækkaði störfum um 11.000 milli áranna 2008 og 2009 og meðalvinnustundum fækkaði um rúmlega 10% sem gefur sterka vísbendingu um minni verðmætasköpun í hagkerfinu. Þessar tölur sýna svo að ekki verður um villst að staðan hefur gerbreyst til hins verra að undanförnu og þessi staða snertir marga, gott ef ekki þúsundir einstaklinga á Íslandi. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að aldrei hafa jafnmargir flust frá landinu. Á síðasta ári fluttu tæplega 11.000 manns burt. 4.835 fleiri fluttu frá landinu en til þess en næstflestir brottfluttir umfram aðflutta voru árið 1887.

Löngu tímabærum tillögum iðnaðarráðherra um næstu skref í atvinnumálum sem kynntar voru sl. föstudag ber að fagna, sem og þessari tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir um sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt. Fyrirhuguð fyrningarleið í sjávarútvegi og tregða til að greiða götu í framkvæmdum sem tengjast orkumálum hafa þó ekki verið góðar vísbendingar um atvinnustefnu stjórnvalda. Það er gott að sjá að stjórnvöld hafa ákveðið að setja atvinnumál á landsvísu og rekstrarumhverfi atvinnulífsins í forgang á næstu mánuðum og það er fagnaðarefni út af fyrir sig. Við verðum öll að leggja okkar af mörkum til uppbyggingar atvinnulífsins og samfélagsins því nú ríður á að sköpuð verði ný störf og atvinnuleysi útrýmt. Markmið ályktunarinnar um að Ísland verði í fararbroddi í verðmætasköpun, menntun, velferð og lífsgæðum er verðugt markmið sem ég vil taka þátt í að vinna að. Efnahagsleg endurreisn hefur gengið hægar en vonir stóðu til. Það er því orðið löngu tímabært að við horfum til framtíðar og vinnum saman að því að móta framtíðarsýn fyrir Ísland.

Virðulegi forseti. Mig langar að lokum að spyrja hæstv. forsætisráðherra tveggja spurninga. Sú fyrri snýr að því hvaða aðilar það eru og hversu margir munu eiga sæti í stýrihópnum sem á að vinna að framkvæmd áætlunarinnar. Hins vegar langar mig að spyrja sömu spurningar er varðar samráðshópinn um atvinnustefnuna.