138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um flest það sem fram kom í máli hans. Það er mikilvægt að efla gjaldeyrisskapandi atvinnurekstur. Spurningin er hvar við látum bera niður. Hann talar um sjávarútveginn. Við þurfum að hlúa að honum, ég er sammála um það. Hann talar um fjölbreytni, hann talar um ferðaþjónustuna, við erum hjartanlega sammála hvað þessa þætti snertir.

Ég held að ágreiningsefni okkar snúi fyrst og fremst að orkufrekum iðnaði sem hann nefnir. Ég vil fara, hygg ég, mun hægar í sakirnar í því efni. Varfærni eða íhaldssemi mína skýri ég m.a. með skírskotun í varnaðarorð fjölmargra sérfræðinga í orkumálum sem hafa sótt okkur heim á undanförnum árum og látum við þá umhverfismálin liggja á milli hluta. Nú er ég að horfa á þetta fyrst og fremst í efnahagslegu tilliti. Þeir hafa sagt, og ekki bara einn eða tveir heldur fjölmargir sérfræðingar sem hingað hafa komið, að við eigum að fara varlega núna í að binda okkur í samstarfssamningum við orkufrekan iðnað til mjög langs tíma, það sé margt á hreyfingu og flest í þá átt í orkuiðnaðinum að orkan sé að verða verðmætari og það sé varasamt fyrir okkur á þessu stigi að festa okkur til mjög langs tíma.

Síðan er það hitt með hin afleiddu störf, áliðnaðinn og stóriðjuna. Það er skrýtið hvernig menn þurfa alltaf að tala um afleidd störf þegar þessi starfsemi er annars vegar. Þetta á við um allt samfélagið, alla atvinnustarfsemi, hvar sem er mannlegt samfélag er að finna afleidd störf, (Forseti hringir.) margvíslegt þjónustuhlutverk, í skólum, leikskólum, verslunum, vegagerð o.s.frv., (Forseti hringir.) sem er ekkert bundnara við þennan atvinnurekstur (Forseti hringir.) en annan. Þetta á við um samfélagið allt.