138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[15:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, það er verðmætasköpun fólgin í hverju starfi og hvert starf hefur einhverjar afleiðingar i för með sér. Ég er honum hins vegar ekki sammála þegar hann talar þannig að við verðum að fara mjög rólega og varlega um þessar mundir og eigum ekki að flýta okkur. Hann getur ekki sagt það, virðulegi forseti, við þá 14.705 einstaklinga sem voru atvinnulausir í janúar. Þeir hafa ekki efni á að bíða. Samfélagið hefur ekki efni á því að atvinnuleysið verði viðvarandi. Inntakið í ræðu minni áðan sem ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur hlustað á snerist fyrst og fremst um að taka undir með Alþýðusambandi Íslands og samtökum atvinnurekenda og þá gagnrýni sem þeir viðhafa á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sem kristallaðist í orðum framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins þegar hann sagði í viðtali á dögunum að tími væri kominn til að þessi ríkisstjórn hætti að tala og færi að gera eitthvað.

ASÍ gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa ekki litið til verkefna og ekki staðið við stöðugleikasáttmálann, lokið viðræðum við lífeyrissjóðina sem átti að ljúka fyrir hálfu ári. Það er eitt verkefni sem hefur verið klárað með lífeyrissjóðunum og það er Landspítalinn. Annað hefur ekki gerst og það er þetta aðgerðaleysi sem er svo hættulegt og það er það sem við getum ekki sætt okkur við. Þegar gagnrýnin er orðin svo hörð sem raun ber vitni út af andvaraleysi ríkisstjórnarinnar sem endurspeglast síðan í orðum þingmannsins áðan um að nú eigum við að fara okkur hægt og fara okkur rólega og það megi ekki horfa til stórra atvinnutækifæra er tímabært að hugsa sinn gang. Þetta eru ekki beint hvetjandi skilaboð til þeirra kannski fjölmörgu aðila sem hafa verið í viðræðum við (Forseti hringir.) stjórnvöld um að byggja upp atvinnu í íslensku samfélagi í framtíðinni en eru allir að hverfa á braut (Forseti hringir.) samkvæmt upplýsingum iðnaðarráðherra og forstjóra Landsvirkjunar.