138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[16:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alger misskilningur að ég telji að við eigum að fara okkur hægt í atvinnuuppbyggingu. Ég sagði þvert á móti að ekkert mál hefði fengið eins mikla umræðu á borði ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna og atvinnuuppbyggingin og mikilvægi þess að tryggja fulla atvinnu í landinu. Við erum að huga að margvíslegum úrræðum. Ég nefndi ferðaþjónustu, sprotafyrirtækin, átak fyrir ungt fólk, og þannig mætti áfram telja úrræði sem hér hafa verið útlistuð í dag.

Þar sem ég var að tala um að menn ættu að fara varlega og læra af reynslunni var í stóriðjuuppbyggingu og horfa til þess að virðisaukinn þar er minni en í flestum öðrum atvinnugreinum. Stóriðja í eigu erlendra aðila gefur minni virðisauka en flestar aðrar atvinnugreinar. Þetta er staðreynd.

Þegar vísað er í aðila vinnumarkaðar, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, þá er ég hreinlega ekki sammála þessum aðilum. Mér finnst þeir of hallir undir stóriðjulausnir og stórverktakalausnir. Ég er á því máli að við eigum að horfa til fjölbreytninnar, til þess að margt smátt gerir margt stórt og tryggir miklu fleira fólki atvinnu á miklu hagfelldari kjörum og forsendum en stóriðjulausnirnar. Ég er einfaldlega ósammála þeim áherslum sem þar hafa verið uppi. Ég er miklu meira sammála málflutningi formanns BSRB sem fram kom fyrir nokkrum dögum í blöðum og í áherslum frá bandalaginu um mikilvægi þess að styrkja velferðarþjónustuna, almannaþjónustuna, löggæsluna, sjúkrahúsin, menntastofnanir o.s.frv. (Gripið fram í.) jafnframt því sem við leitum úrræða til að tryggja iðnaðarmönnum störf, smiðunum sem hafa orðið fyrir skakkaföllum (Forseti hringir.) í kreppunni.