138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[16:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf ákveðnar efasemdir um að hægt sé að greina á milli opinberrar starfsemi, opinberrar þjónustu, almannaþjónustunnar, og gjaldeyrisskapandi og verðmætaskapandi framleiðslu í landinu hins vegar. Ég held að þessi lína sé í rauninni ekki til vegna þess að allt er þetta hluti af heild þar sem einn þátturinn þjónar öðrum. Opinber störf í menntun í háskóla, á rannsóknarstofum, er verðmætaskapandi líka í sjálfu sér. Það er ekki hægt að greina þarna á milli með þessum hætti.

Síðan er það með atvinnusköpunina. Okkur var sagt, af því að vísað er í Kárahnjúkavirkjun, þegar hún var reist á sínum tíma að við uppbygginguna yrði vinnuaflið sem kallað yrði til 70–80% Íslendingar og útlendingar yrðu 20% eða rétt rúmlega það. Þetta reyndist verða öfugt. Hingað var flutt aðkeypt vinnuafl og þegar upp er staðið og dæmið er gert upp í heild sinni, eins og ég var að vísa til áðan, að frá því að stóriðjan var innleidd hér á landi um 1970 hefur störfum fjölgað um 85.000 en störf í stóriðjunni eru sennilega um 3.000 talsins. Það eru 1,7% af vinnuaflinu. Við erum ekki að tala um þá fjölgun starfa sem menn vilja vera láta og ég er einfaldlega að segja: Er ekki kominn tími til að við losum pínulítið um þessar trúarskrúfur á sálinni og setjumst yfir málin, skoðum hver virðisaukinn af hverri atvinnugrein er í landinu og hvað hún í reynd skapar af störfum.

Varðandi Helguvík, ég var aldrei neinn sérstakur áhugamaður um hana og hefði viljað og vil enn að áður en farið er út í verkefni af þessu tagi, verði séð til þess (Forseti hringir.) að við vitum hvar á að taka orkuna hverju sinni.