138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

sóknaráætlun til eflingar atvinnulífi og samfélagi um land allt.

332. mál
[16:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að allt hangir þetta saman, opinber störf og störf á almennum markaði. Þó er sá munur á að til að geta greitt launin, til að geta haldið uppi þjónustunni þarf að vera verðmætasköpun þar á bak við. Það er ekki hægt að gera eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerir, að leggja þessa hluti að jöfnu vegna þess að þá væri mjög einfalt fyrir ríkið að leysa strax allt atvinnuleysi. Ef þetta stæði á endum og væri rétt sem hv. þingmaður segir mundi ríkið auðvitað ráða alla þá sem eru atvinnulausir, ráða þá sem kennara, hjúkrunarfræðinga og hvað það nú er sem hægt er að gera vegna þess að það eru jú allt verðmæti sem eru sköpuð og þar með stæði það undir sér. Auðvitað gerir það það ekki. Þetta þekkir hv. þingmaður og veit og er óþarfi fyrir mig að fara í gegnum þetta, þetta eru þvílík grundvallaratriði.

En verðmætasköpunin, hvort sem hún kemur frá smáum fyrirtækjum eða stórum, skiptir okkur Íslendinga höfuðmáli núna. Við höfum ekki tíma til að bíða eftir því til að leysa okkur úr þeim vanda sem er fyrirsjáanlegur næstu eitt, tvö og jafnvel þrjú árin, ef við ætlum að komast hjá því að það verði áratugarvandi verðum við að grípa til ákveðinna aðgerða. Það er mjög nauðsynlegt að hvetja til nýsköpunar og sprotastarfsemi en ég veit mjög vel að það tekur langan tíma að koma upp slíkum fyrirtækjum. Þau munu ekki leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir næstu eitt, tvö, þrjú árin. Til að leysa þennan vanda og til að missa ekki of margt fólk út úr landinu, verðum við að grípa til aðgerða, m.a. eins og það sem við höfum verið að nefna hér og ræða varðandi Helguvík, nýta orkuna sem við getum haft þar, nýta þau fjárfestingartækifæri sem við getum haft, en við verðum líka að taka til í ríkisrekstrinum. Við verðum að skera meira niður en gert var. Við verðum að koma okkar málum þannig fyrir að það verði hvati í hagkerfinu til að ráðast áfram. Ég verð að nefna það hér af því að bæði hv. þm. Ögmundur Jónasson og líka hæstv. fjármálaráðherra hafa ítrekað nefnt dæmi um hluti sem fylla menn bjartsýni, m.a. eins og ferðaiðnaðurinn og annað slíkt, að allt eru það dæmi um iðnað og starfsemi sem blómstra vegna þess að gengi íslensku krónunnar hrundi. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli í því öllu saman, það er ekki vegna þess að ríkisstjórnin hafi verið að gera eitthvað rétt eða hjálpa til, því miður.