138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar að hefja mál mitt á því að gagnrýna örlítið fundarstjórn í þingsalnum í dag vegna þess að þetta mál var slitið í sundur til að koma að öðru máli í millitíðinni. Það hefði verið ágætt að klára þetta mál í einni lotu strax eftir hádegishlé. Að öðru leyti fagna ég þessum þingsályktunartillögum hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur heils hugar. Loksins gefst tækifæri til að skoða þá fremur viðurstyggilegu ákvörðun Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi ráðherra, sem og þingmanna flokka þeirra, þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem stóðu að baki ákvörðun um þátttöku í stríði í Írak. Stríð eru það versta sem mennirnir gera og það má aldrei nokkurn tíma sofna á verðinum í gagnrýni á þau.

Frú forseti. Ég vil gjarnan hefja mál mitt með tilvitnun í grein sem ég skrifaði af þessu tilefni árið 2007. Þessi grein fékkst ekki birt í Morgunblaðinu á sínum tíma að sögn ritstjórnarfulltrúans þar — og ég skrifaði niður orðrétt það sem hann sagði: Það er einfaldlega allt vitlaust á ritstjórninni út af þessu andskotans stríði og ekki hægt að birta neitt. Grein mín birtist svo síðar í Fréttablaðinu .

Greinin hófst á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Á sjötta áratug síðustu aldar var kalda stríðið í algleymingi í Bandaríkjum Norður-Ameríku og víðar. Sú þjóð hafði þá, í framhaldi af góðum árangri í síðari heimsstyrjöldinni, talið það skyldu sína að skerast í leikinn á Kóreuskaga og þar hélt hún úti stríði í um þrjú ár á forsendum frelsis og án réttmætrar aðkomu Sameinuðu þjóðanna. McCarthy og hans fólk stóð svo á hliðarlínunni. Bandaríkin voru þá að hlaða undir hina svokölluð dómínókenningu, sem síðar varð skálkaskjól það er réttlætti áframhaldandi hernaðaríhlutun í Suðaustur-Asíu og árið 1964 sviðsetti hún Tonkinflóa-atvikið sem notað var sem átylla til hernaðar í Víetnam. Þá voru rökin þau að hinn svokallaði frjálsi heimur yrði að verjast á öllum vígstöðvum gegn heimsvaldastefnu alræðisstjórnar kommúnista og ógn þeirra við frið og frelsi, eins og sagt var. Því fór sem fór og þegar upp var staðið höfðu rúmlega 58 þúsund bandarísk ungmenni verið drepin. Nöfn þeirra má nú lesa á um 200 metra löngum vegg, minnismerkinu um Víetnam-stríðið, í Washingtonborg í Bandaríkjunum.

Í landi einu í mörg þúsund kílómetra fjarlægð voru menn sem reru öllum árum í stuðningi sínum til réttlætingar þessu stríði þótt níu af hverjum tíu sem dóu væru óbreyttir borgarar, konur, börn, karlar, afar, ömmur, barnabörn sem ekkert — ekkert —höfðu gert á þeirra hlut. Þeir fóru hörðum orðum um þá sem voru ekki sammála og kölluðu þá m.a. óvini hins frjálsa heims. Þessir menn voru þá íslenskir þingmenn, þeir voru íslenskir ráðherrar og þeir voru ritstjórar Morgunblaðsins . Það sem þeir fjölluðu um sín á milli og á síðum blaðsins var frelsanir óvinaþorpa úr höndum kommúnista. Það sem þeir fjölluðu þó aldrei um er að hinn 200 metra langi veggur er í raun 10.300 metra langur þegar nöfn hinna, þ.e. þeirra þriggja milljóna Víetnama sem líka voru drepnar, eru talin með.“

Tilvitnunin heldur áfram, með leyfi forseta:

„Enn á ný er hafið stríð í nafni frelsisins. Nú sem þá eru það ekki börn ráðamanna í Bandaríkjunum sem verða drepin heldur að stórum hluta háskólanemar, hverra eini möguleiki til menntunar á háskólastigi er að ganga í varalið hersins. Nú sem þá verður mest mannfall meðal óbreyttra borgara og níu af hverjum tíu sem munu deyja verða úr hópi þeirra. Nú sem þá í landi einu í mörg þúsund kílómetra fjarlægð eru menn sem róa öllum árum að því að réttlæta þetta stríð. Þeir fara hörðum orðum um þá sem ekki eru sammála. Þessir menn eru íslenskir þingmenn, íslenskir ráðherrar, þeir eru ritstjórar Morgunblaðsins . Þessir menn eru hinir sömu í dag þó að nöfnin hafi breyst, þótt níu af hverjum tíu sem muni deyja verði börn, konur og karlar, afar, ömmur, barnabörnin sem ekkert — ekkert — hafa gert á þeirra hlut.

Þeir halda áfram að leggja til að bandarísk ungmenni verði notuð í verkin. Nú skal drepið í þágu málstaðar sem er svo fráleitur að málsvarar hans hafa skipað sér á bekk með firrtustu mönnum sögunnar. Það sem þeir nú fjalla um sín á milli og á síðum blaðsins eru árásir sem gerðar eru á skotmörk, eins og það var kallað, og sjá má fjölmargar fyrirsagnir og fréttir í Morgunblaðinu frá þeim tíma um, og það er rétt og það er gott vegna þess að Íslendingar og allur heimurinn er í hættu.

Af öllum þeim manngerðum sem búa á þessari jörð er þetta sú huglausasta og sú grimmasta. Í stað þess að fordæma skipulögð dráp á þúsundum óbreyttra borgara taka þeir sér stöðu gegn lífinu og með dauðanum — í hæfilegri fjarlægð. Ekki nóg með það, í stað þess að ganga fram sjálfir eða senda sín eigin ungmenni styðja þeir að ungmennum annarra landa verði fórnað. Fremur þægilegt, ekki satt? Yfir 200 þúsund óbreyttir borgarar sem vitað er um að biðu bana í Íraksstríðinu.“

Herra forseti. Það eru í mínum huga vandfundnir aumari menn en þær bleyður sem sitja á valdastólum og styðja stríð, að ekki sé nú talað um þá stuðningsmenn sem sitja heima í stofu á sínum sjálfvirku letiblóðsstólum og fylgjast með svona harmleik af tæknilegum áhuga. Þeir hafa aldrei og munu aldrei reka höfuðið upp úr sandinum og viðurkenna viðbjóðinn, þeir hafa aldrei kynnst af eigin raun þeim mönnum sem dóu, þeir hafa aldrei kynnst af eigin raun þeim sem sneru aftur með slík ör á sálinni að aldrei bættist skaðinn, ör sem með tímanum sviptu þá fjölskyldunni, vinunum, vitinu og oft lífinu. Slík ör bera allir eftirlifendur stríða, hvort sem um er að ræða svokallaða sigurvegara eða sigraða. Þetta eru að sjálfsögðu ekki frekar en börnin skotmörkin í fyrirsögnum og fréttum Morgunblaðsins heldur óþægileg staðreynd sem best er að þegja um.

Íraksstríðið eins og önnur stríð var stríð milli góðs og ills, milli þeirra sem vilja frið og milli þeirra sem vilja ekki frið, þar sem hinir stríðsæstu féllu enn á ný í þá gildru hugans að hræðsla þeirra við umheiminn væri rétt. Í Kóreustríðinu voru herdeildir staðsettar á strönd Virginíufylkis á austurströnd Bandaríkjanna, sem snýr að Atlantshafinu, þar sem dagskipunin var að verjast innrás frá Norður-Kóeru og líti menn svo á hnattlíkan. Í Víetnam-stríðinu stafaði, samkvæmt Morgunblaðinu, Íslendingum stórhætta af Norður-Víetnam. Síðast voru það Bandaríkin og vestræn menning sem voru í stórhættu vegna Afganistans.

Svo kom Írak, sú vænisjúka sýn á heiminn sem íslenskir stuðningsmenn þessa stríðs höfðu sýnir okkur hinum hvað þeir eru í raun og veru. Þeirra endalausu hártoganir á lögum og ályktunum til réttlætingar stríðinu opinbera einnig öfgakenndustu birtingarmynd óttans, lygina. Sú endalausa fylgispekt Íslendinga við Bandaríkin opinberar einnig hvort tveggja, hina undirokuðu þjóð sem bundin var á klafa hermangsins sem og hina yfirgengilegu vanþekkingu á sögu og samfélagi þeirrar þjóðar sem hún valdi sem sinn helsta bandamann. Þetta hefur gert það að verkum að helstu afrek íslenskrar utanríkisstefnu eru blóði drifin og svo heimskuleg að engu tali tekur. Nægir þar að nefna afrekið þegar Íslendingum var att á foraðið af Bandaríkjamönnum og þeir látnir vera í forgöngu fyrir stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma. Afrek þetta hvílir nú undir svo þykku lagi af storknuðu blóði að aldrei er minnst á.

Ekki eru heldur ýkja mörg ár síðan utanríkisráðherra var sendur út af örkinni í opinbera heimsókn til Ísraels þar sem hann faðmaði Ariel Sharon, forsætisráðherra þess tíma, hvers verk voru þar áður fyrr fjöldamorð og dráp á börnum. Í einni aðgerðinni tókst hermönnum hans m.a. að skjóta til bana tveggja ára gamla stúlku. Það hlálega er að öll þessi afrek og allur þessi stuðningur við Bandaríkin er og hefur alltaf verið óþarfur. Íslendingar hafa alla tíð vel getað haldið áfram samstarfi sem aðilar að vestrænu samstarfi og NATO, samstarfi eins og fjölmörg önnur ríki hafa gert án þessarar blindu fylgispektar.

Svo haldið sé áfram með tilvitnun úr greininni, með leyfi forseta, en þar segir:

„Og nú hafa menn aftur tekið sér stöðu og aftur á upplognum forsendum og aftur er með innantómum loforðum stuðningur veittur við stríð, stríð sem eins og öll hin stríðin hafa engan sigurvegara þegar upp er staðið. Stríð sem eins og öll hin stríðin stafa af heimsku og illsku allra þeirra sem fyrir stríðið gerðu ekki skyldu sína og tóku afdráttarlausa stöðu með lífinu. Lýðræði og uppbygging í Írak hljómar vel. Fögur orð forsætisráðherra Íslands á þeim tíma eru sorgleg endurómun á þekktustu, hlálegustu og í raun firrtustu ummælum bandarísks foringja í stríðinu í Víetnam þegar hann hafði lagt enn eitt óvinaþorpið í rúst og sagði: Til að bjarga þorpinu þurftum við að eyða því.“

Þriðjudaginn 25. mars 2003 mætti ég í bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Ég afhenti vegabréfið mitt og afsalaði mér bandarískum þegnrétti þá. Það viti firrta samfélag sem hefur ofbeldisdýrkun, stríð og aftökur til vegs og virðingar, sem fyrirlítur og misnotar alþjóðastofnanir, sem brýtur alþjóðalög og sem í gegnum tíðina ber ábyrgð á tilefnislausum dauða milljóna manna, það samfélag gat ekki verið mitt, ekki lengur. Og þótt Ísland hafi verið á sama báti og Bandaríkin í Íraksstríðinu eins og svo oft áður, munum við vonandi einhvern tíma með samstilltu átaki ná að stöðva þessa utanríkisstefnu andskotans sem m.a. gerir það að verkum að núverandi ríkisstjórn og þar með þjóðin er þátttakandi á vegum NATO í stríði í Afganistan. Norður-Atlantshafsbandalagið er í stríði í Afganistan, það er sama geggjunin og þegar herlið á (Forseti hringir.) austurströnd Bandaríkjanna til varnar innrás frá Norður-Kóreu var staðsett þar. Við erum því miður stödd á svipuðum stað (Forseti hringir.) en þessar þingsályktunartillögur eru skref í rétta átt og þeim ber að fagna (Forseti hringir.) og ég þakka fyrir þær.