138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:49]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú erum við farin að nálgast pínulítið veruleikann. Misskilningur, mistúlkanir, fórnarlömb spunameistaranna, nú erum við farin að nálgast þá umræðu sem fer fram annars staðar. Hv. þingmaður segir að allt liggi ljóst fyrir, hverjir hafi tekið ákvarðanir í þessu máli, hverjir höfðu milligöngu, hverjar voru lagalegar forsendur og þar fram eftir götunum. Þannig er þetta nú ekki. Við erum margoft búin að deila um þetta hér í þingsal og gerðum það á sínum tíma og lögðum þess vegna fram ósk um rannsókn á árinu 2004, ári eftir að þessir atburðir áttu sér stað.

Ég veit ekki betur en að eitt af því sem við erum að ræða núna sé hvernig á því stóð að við vorum sett á lista, hinn illræmda lista „Coalition of the Willing“ sem hét svo á ensku, bandalag hinna staðföstu eða viljugu þjóða. Ég veit ekki betur en að íslensk stjórnvöld, ráðherrar og ríkisstjórn hafi neitað því að við hefðum verið sett á þennan lista. Ég veit ekki betur en að menn hafi haldið sig við það heygarðshornið í umræðu í dag, þetta liggur ekkert ljóst fyrir. Samt las ég hér upp úr yfirlýsingu talsmanns bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 18. mars 2003 þar sem hann staðhæfir að allar þessar þjóðir, þar á meðal Ísland, sem hann taldi upp hafi gefið jákvætt svar, afdráttarlaust jákvætt svar við því að við skyldum sett á þennan lista. Þarna er alla vega komið eitt atriði sem við þurfum að skoða, hverjir komu að þessu máli, hverjir höfðu milligöngu, stjórnmálamenn, embættismenn og aðrir. Við viljum bara fá þetta fram í dagsljósið.

Síðan varðandi Kósóvó sem hv. þingmaður vék að. Ég hef aldrei reynt að skauta fram hjá því máli. Við vorum mjög gagnrýnin á innrásina í Kósóvó og hlutdeild okkar óbeina í gegnum Atlantshafsbandalagið, NATO, sem réðst þar inn, og hv. þingmaður fer létt yfir (Forseti hringir.) þau mál þegar hann segir að þar hafi verið komið í veg fyrir hrikalega atburði. (Forseti hringir.) Það mál á sér náttúrlega miklu, miklu lengri og sorglegri aðdraganda og þar er NATO ekki (Forseti hringir.) eins saklaust og hvítt og menn vilja stundum vera láta.