138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[16:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný vil ég ítreka að eitt er það auðvitað að ef einhver skjöl eru enn óbirt í þessu máli sem hægt er að birta, ættu þau að sjálfsögðu, rétt eins og með öll önnur mál, að vera komin fram, mundi ég telja. Ég held reyndar að staðan sé sú að það er allt mjög skýrt í þessu máli, hvað gerðist, hverjir tóku ákvarðanir, hvernig, hvenær og á hvaða forsendum. Allt þetta hefur komið fram ítrekað bæði í þingsal og í umræðum í þjóðfélaginu, bæði fyrir kosningarnar 2003, ekki mikið rætt fyrir kosningarnar 2007 og ekkert í kosningunum 2009 og reyndar ekki fyrr en aftur núna þegar yfirheyrslur hófust í þessu máli úti í Bretlandi. En ég skil vel hvers vegna Bretar fara þá leið sem þeir fara, það er full ástæða til þess fyrir Breta að fara mjög gaumgæfilega yfir það sem þar gerðist og eins fyrir Bandaríkjamenn.

Hvað varðar Kósóvó er það þannig að menn geta ekki sagt einn daginn að við eigum að fara alfarið og algjörlega eftir alþjóðalögum og rétti og hinn daginn að nú sé staðan svo alvarleg að við ætlum ekki að gera það, og síðan gagnrýnt þá sem taka ákvörðun, sem eins og í þessu tilviki má færa rök fyrir að hafi ekki staðist lög og rétt, og bera fyrir sig að nauðsyn hafi borið til. Það er þá bara mat hvers og eins á hverjum tíma hvort það hafi verið nauðsynlegt. Annaðhvort hafa menn þá reglu að segja að það skuli alltaf farið eftir alþjóðalögum og reglum eða menn beygja sig undir það að það sé mat þeirra sem taka ákvarðanir á hverjum tíma hvort nauðsynlegt sé að grípa til einhverra aðgerða eða ekki. Það er það sem umræðan um Kósóvó snýst um. Hitt er síðan rétt að það er hægt að taka mjög áhugaverða umræðu um sögu mála á Balkanskaganum, aðkomu einstakra ríkja eða ríkjabandalaga o.s.frv. Það er allt önnur umræða og flókin.

Ég vil bara segja að lokum að það er ekki hægt að leggja að jöfnu þá ákvörðun sem hér var tekin og það sem menn urðu t.d. vitni að í yfirheyrslum í sjónvarpi (Forseti hringir.) hvað varðar Bretland og ákvörðun sem þar var tekin og umræður sem þar hafa verið. (Forseti hringir.) Þetta eru í eðli sínu mjög ólík mál.