138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[17:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður misskildi mig eilítið. Það var bara af góðsemi og hjálpsemi sem ég vildi nefna þetta við hv. þingmann. Af máli hv. þingmanns mátti skilja að þingmaðurinn hefði áhyggjur af því að Morgunblaðið mundi skamma hv. þingmann á morgun fyrir að hafa ekki farið rétt með og ég vildi bara aðstoða þingmanninn hvað þetta varðaði. Af því að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafði á orði að ég væri hér til að halda uppi vörnum fyrir Morgunblaðið þá var alveg augljóst af málflutningi hv. þingmanns að það þarf ekki mig til, Morgunblaðið er fullfært um að verja sína stefnu og skoðanir sem birtast í ritstjórnarefni þess blaðs. Það hefur sýnt sig og sýndi sig ágætlega einmitt í þeirri ræðu sem haldin var hér áðan.

Það sem ég aftur á móti var að kalla eftir, og ástæðan fyrir því að ég kalla eftir því hvað það er sem setur af stað þessa rannsókn, þá hljótum við m.a. einmitt að horfa á hvort stjórnskipun landsins eða þingsköp hafi verið brotin þegar kom að því hverjir tóku ákvörðunina. Var þeim heimilt að taka þessa ákvörðun með þeim hætti sem hún var tekin og hafa þeir gert grein fyrir þeirri ákvörðun? Svarið við því hvort þeir hafi gert grein fyrir hvernig sú ákvörðun var tekin er augljóst, það hefur verið gert margítrekað, bæði í þessum ræðustól og annars staðar.

Hvað varðar lögmætið kallaði ég einmitt eftir því hvort eitthvað væri í áliti Eiríks Tómassonar sem þingmaðurinn hefði rökstuddan grun um með lögum að væri rangt. Ef svo væri mundi ég vel skilja að þingmaðurinn gerði kröfu um að sérstök rannsókn færi fram og það yrði skoðað sérstaklega, vegna þess að þingmenn hefðu rökstuddan grun um að þarna hefði rangt verið haldið á málum. Þess vegna er mikilvægt að þingmaðurinn noti tækifærið, í það minnsta þegar þetta mál fer fyrir allsherjarnefnd og þá í umræðu, komi málið þaðan út, til að gera grein fyrir því hvað það er sem þingmaðurinn telur að þar hafi verið gert rangt. Það er ekki nóg að segja að manni bara finnist það, maður verður að færa fyrir því rök, tefla fram lagarökum (Forseti hringir.) og sýna fram á t.d. hvað sé rangt hjá prófessor Eiríki Tómassyni og hans lagarökum.