138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi ekki tölu á því hve oft ég hef stigið í ræðustól hér á Alþingi til þess að ræða málefni Íraks. Ég gerði það á meðan einræðisfanturinn Saddam Hussein réð ríkjum í Írak og ástundaði þar stjórnarhætti sem voru eins langt frá því að vera lýðræðislegir og í anda mannréttinda og hugsast getur. Ég varaði við þeim aðgerðum sem gripið var til gegn honum og þjóðinni, þær bitnuðu fyrst og fremst á þjóðinni og leiddu að mati starfsmanna hjálparstofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna til dauða á milli hálfrar milljónar og milljónar barna og saklausra borgara sem komnir voru á legg. Þetta stóð yfir árum saman og ég furðaði mig oft á því hvernig það gæti gerst að við fengjum ítarlegar skýrslur um þær hremmingar sem á þessa þjóð voru lagðar, ekki bara af einræðisherranum heldur líka umheiminum sem setti þjóðina í herkví — að því er mér fannst sannfærandi rök vera fyrir að væru hagsmunatengd og hefðu meira með olíuauð Íraks að gera en mannréttindabrot einræðisherrans. Ég furðaði mig sem sagt á því hvernig á því gæti staðið að maður talaði alltaf eins og inn í múrvegg þegar um þetta var rætt.

Hér var fyrr í dag talað um spunameistara, lygar, fals og blekkingar og maður veltir fyrir sér hvort það geti verið að við komumst einhvern tíma út úr þeim farvegi að við látum blekkja okkur og ljúga að okkur þannig að við tökum þátt í ofbeldi gegn saklausu fólki. Ég held að þær rannsóknarnefndir sem menn eru að setja niður í Hollandi, Bretlandi, Danmörku og hér snúist um þetta. Við erum að tala um gagnsæja, lýðræðislega og opna stjórnsýslu vegna þess að við viljum ekki að svona lagað gerist. Yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga var andvígur árásinni á Írak, hlustaði á menn á borð við Hans Blix sem á vegum Sameinuðu þjóðanna stjórnaði leit að gereyðingarvopnum í Írak og hafði uppi varnaðarorð. Við hlustuðum á hann og hans líka, við hlustuðum á raddir innan úr mannréttindastofnunum og -samtökum og fréttamenn sem voru gagnrýnir. Samt var ekki látið sitja við það eitt að Ísland styddi árásina á Írak, við vorum beinlínis sett á lista yfir eindregnustu stuðningsmenn hernaðarins. Okkar litla Ísland var á lista „Coalition of the Willing“, bandalags hinna viljugu, og það þrátt fyrir andstöðu þjóðarinnar.

Hér höfum við heyrt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins lýsa því yfir með tilvísun í stjórnsýslu og lagabókstaf að þetta hafi þrátt fyrir allt verið leyfilegt af hálfu þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem verkstýrðu þessu ferli. Það er vísað í lögfræðinga sem reiddu fram skýrslu þessu til stuðnings. Þessi skýrsla Eiríks Tómassonar sem hér er til umræðu var mjög umdeild. Ég var ósáttur við þá skýrslu. Við sem þá vorum í stjórnarandstöðu töldum að það hefði ekki verið rétt að staðið, ekki bara siðferðislega heldur lagalega, hvað varðar upplýsingaskyldu til utanríkismálanefndar þingsins og þar með til Alþingis.

Síðan var það borið til baka og véfengt að Ísland hefði nokkurn tíma verið sett á lista hinna viljugu þjóða en hér erum við í dag og hlustum á talsmenn Sjálfstæðisflokksins tala eins og ekkert hafi gerst. Þetta sé bara tímaeyðsla, það sé allt í lagi að skoða málin en bara ekki núna. Það var ekki heldur hægt árið 2004. Þá var sett fram þingmál af hálfu stjórnarandstöðunnar um að rannsókn af því tagi sem við leggjum til núna færi fram. Þessu var neitað. Tveimur árum síðar, árið 2006, var aftur borið fram þingmál af hálfu þingmanna Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég var 1. flutningsmaður að því þingmáli þar sem kveðið var á um að Ísland yrði tekið út af lista hinna viljugu og að við bæðumst afsökunar á framferði okkar. Þá var ekki heldur tími til þess að fjalla um það mál og aftur núna er ekki rétti tíminn.

Jafnframt er okkur sagt að þetta kosti í rauninni litla fyrirhöfn vegna þess að öll skjöl séu komin fram. Þeir segja að þetta liggi allt ljóst fyrir. Ef svo er skulum við bara vinda okkur í málin. Þetta snýst náttúrlega ekki bara um skjöl, þetta snýst um að heyra sjónarmið hlutaðeigandi aðila, það kann eitthvað að hafa gerst í símtölum. Þetta snýst ekki um persónur í þeim skilningi að menn elti þær uppi sem slíkar. Við erum að tala um stjórnsýslu, við erum að tala um lýðræði, ábyrgð ríkisstjórnar, ábyrgð ráðherra, að það sé sagt satt og rétt frá og viðhöfð lýðræðisleg og lögleg samskipti við þingið. Um það snýst þetta mál, á sama hátt og menn taka á þessum málum í öðrum ríkjum eins og ég vék að hér áðan.

Ein lítil spurning. Stjórnarandstöðuþingmenn spurðu hvort ég teldi að upplýsa hefði átt utanríkismálanefnd Alþingis um Icesave-samninginn þegar hann kom fram snemmsumars. Svar mitt er mjög afdráttarlaust: Já, ég tel að það hefði átt að gera.

Að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og þakka fyrir þessa umræðu. Hvers vegna nefni ég hana? Jú, við erum að ræða tvö þingmál þar sem við erum fyrstu flutningsmenn, ég að öðru þingmálinu og hún að hinu, og við teljum að þau eigi að heyra saman í einni spyrðu. Annars vegar er verið að kalla eftir upplýsingum og hins vegar talað um að vinna úr þeim. Við leggjum til að þessum málum verði vísað til utanríkismálanefndar Alþingis.