138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

framkvæmd fjárlaga.

[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við erum að bíða eftir að fá í hús alveg á þessum dögum fyrstu upplýsingarnar af þessu ári og ég verð vonandi betur í stakk búinn til að svara hv. þingmanni og öðrum mjög fljótlega í þeim efnum.

Já, það er rétt, ég sagði fyrir nokkrum dögum að ég hefði áhyggjur af því að það væri að einhverju leyti hægari snúningur á hlutunum núna eftir áramótin en við höfðum átt von á. Þegar bornir voru saman mánuðirnir desember 2008 og 2009 var staðan komin í gott jafnvægi en þetta virtist vera lakara í janúarmánuðum 2009 og 2010. Svo koma aðrar upplýsingar sem benda ekki til þessa sama, svo sem um kortaveltu. Hún er í góðu jafnvægi og er heldur upp á við og þótt kannski sé ekki hávísindalegt að nefna það leyfi ég mér það samt, blómasalan í gær var meiri en á konudaginn (Gripið fram í.) fyrir ári þannig að það er greinilega — (Gripið fram í.) Að gamni slepptu er komið miklu meira jafnvægi á einkaneysluna en áður var. Hún er hætt að dragast saman og hún er að komast í nokkuð gott jafnvægi þannig að að því leyti til er ekki ástæða til mikillar svartsýni. Auðvitað er maður samt órólegur og vill frekar sjá hlutina leggja af stað í hina áttina.

Varðandi álitamál sem tengjast innheimtu kolefnisgjalda gildir það sama um þau. Ég hef ekki fregnað af því alveg síðustu daga en ég veit að það var í skoðun hvernig þessu véki við með flugið. Það voru deildar meiningar um hvort hægt væri t.d. að leggja á erlend flugfélög sem hingað kæmu og tækju eldsneyti. Þá er náttúrlega ekki gott í samkeppninni að leggja það eingöngu á okkar flugfélög, ég tala ekki um ef millilandaflugið í heild sinni yrði undanskilið. Þetta er þá bara mál sem menn verða að takast á við ef það verða einhverjir meinbugir á því sem við fáum ekki leyst, að taka þessi gjöld, og þá munar að sjálfsögðu (Forseti hringir.) um það og verður að mæta því.