138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

aðild að Evrópusambandinu.

[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki ljóst fyrir fram að meiri hluti þjóðarinnar muni segja nei. Ég leyfi mér t.d. að draga í efa að sá hópur landbúnaðarins sem hv. þingmaður hefur staðið fyrir, þ.e. sauðfjárbændur, muni þegar til kastanna kemur segja nei. Af hverju? Vegna þess að ég tel t.d. að aðild að Evrópusambandinu muni leiða til þess að ákveðnir geirar landbúnaðarins komi betur út innan Evrópusambandsins en ekki.

En ég þarf ekki að segja þjóðinni það, ég þarf ekki að segja þinginu það. Það geta menn ákveðið sjálfir þegar samningurinn liggur fyrir. Ég leyfi mér að efast um að fyrir fram sé hægt að segja að afstaða þjóðarinnar muni falla á einn eða annan veg. Ég tel t.d. að þingmenn Framsóknarflokksins sem eru bæði vel upplýstir og greindir og umburðarlyndir muni láta hinn raunverulega samning ráða afstöðu sinni. Lengi er von á einum, en ég hef alltaf verið fullur af trúnaðartrausti gagnvart getu (Forseti hringir.) Framsóknarflokksins til að taka skynsamlegar ákvarðanir þó að nú um stundir sé kannski ekki hægt að benda á mörg dæmi um það.