138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

samstarf við bandarísk stjórnvöld vegna Icesave.

[15:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í Icesave-deilunni allri hefur helsta vopn Breta og Hollendinga verið að geta þjarmað að okkur Íslendingum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og komið í veg fyrir að efnahagsáætlun sjóðsins og ríkisstjórnarinnar gengi fram. Það er mjög alvarlegt mál og því hefur öllu skipt fyrir okkur Íslendinga í baráttunni gegn óbilgjörnum kröfum þessara tveggja þjóða að við beittum okkur af alefli fyrir því að losa um það tak sem Bretar og Hollendingar hafa á okkur innan sjóðsins. Sérstaklega skiptir máli að hafa góð samskipti við Bandaríkin í þessu máli því að Bandaríkin eru það ríki innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem einna öflugast er.

Á dögunum voru tveir íslenskir sendimenn á fundi hjá staðgengli sendiherra í bandaríska sendiráðinu — en hér hefur lengi ekki verið sendiherra frá þessu stóra og mikla ríki — og þar var rætt um hagsmunamál Íslendinga og kallað eftir stuðningi Bandaríkjanna við málstað Íslands. Ýmislegt annað fór fram á fundinum sem kannski má heita umdeilanlegt, en spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er þessi: Hefur hæstv. forsætisráðherra haft samband við einhverja ráðamenn Bandaríkjanna, utanríkisráðherra, forseta eða aðra bandaríska ráðamenn, annaðhvort með því að kalla eftir fundum eða fá símtöl eða eitthvað þess háttar? Hafa slík samtöl átt sér stað og hver var þá niðurstaða þeirra samtala? Hvað kom þar fram? Hvað hefur þessi mikla vinaþjóð okkar, Bandaríkjamenn, sagt við okkur hvað varðar þetta risahagsmunamál íslensku þjóðarinnar?

Ástæðan fyrir því að ég beini þessu til hæstv. forsætisráðherra er auðvitað sú að í svona stórum málum skiptir öllu að við sýnum t.d. vinaríki eins og Bandaríkjunum hversu miklu máli skiptir fyrir hagsmuni okkar að sjálfur forsætisráðherrann hafi samband, að sjálfur forsætisráðherrann (Forseti hringir.) falist eftir stuðningi fyrir okkur Íslendinga innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.