138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

samstarf við bandarísk stjórnvöld vegna Icesave.

[15:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það kemur mér á óvart að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa gert tilraun til að ná sambandi við forustumenn í bandarískum stjórnmálum, sérstaklega forseta auðvitað, eins utanríkisráðherra eða aðra þá sem geta aðstoðað okkur Íslendinga í því að brjótast undan því taki sem Hollendingar og Bretar hafa náð á okkur innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hef reyndar margsinnis kallað úr þessum ræðustól eftir upplýsingum um það til hvaða aðgerða hafi verið gripið varðandi Norðurlöndin til að brjóta upp þá stöðu sem þar hefur myndast. Það er náttúrlega fullkomlega og algjörlega óeðlilegt að hún skuli hafa fengið að myndast. Ég kalla þá eftir svari að þessu sinni frá hæstv. forsætisráðherra við spurningunni: Hverjar eru skýringarnar á því að hæstv. forsætisráðherra hafi á þessum tímum, við þessar aðstæður, ekki (Forseti hringir.) kallað eftir samtölum eða fundum við ráðamenn í Bandaríkjunum?